„Ég var klukkutíma út af Ritnum í renniblíðu og fallegu veðri. Fiskiríið var fínt eins og það er búið að vera í sumar,“ sagði Sigurður H. Garðarsson skipstjóri á Betu Söru ÍS 42 þar sem hann var að landa í Bolungarvík í gærkvöldi.
Sigurður er á strandveiðum og segir kjörið að róa frá Bolungarvík sem liggi við opnum miðum og þjónusta við bátana sé í sérflokki. Þaðan róa nú um 40 strandveiðibátar og hafa aflabrögð verið fín það sem af er sumri og sjómenn brosa út að eyrum í blíðunni.
„Það væri ósanngjarnt að kvarta núna, ég tala nú ekki um þegar veðrið er svona fallegt,“ sagði Sigurður, ánægður með tilveruna, þar sem hann tók ís og bjó sig undir róður næsta dags.
Sigurður hefur baslað í útgerð frá árinu 1979 en segist vera hættur að stefna á ríkidæmi af útgerðinni. „Þetta er bara skemmtilegt og til þess er lífið að njóta“.