Neytandi vikunnar heitir Bryndís Guðmundsdóttir er 44 ára gift og fimm barna móðir. Börnin eru á aldrinum 19,17,15,7 og 4 ára. Fjölskyldan býr í Grundarfirði á Snæfellsnesi. Bryndís starfar í Grunnskóla Grundarfjarðar sem stuðningsfulltrúi og skólaliði. Hún er sveitastelpa sem ólst upp á Munaðarnesi á Ströndum. Áhugamál hennar eru crossfit, safnar pottablómum og hefur gaman af að rækta grænmeti í garðinum. Fjölskyldan horfir mikið saman á kvikmyndir. Börnin hafa fengið gott kvikmyndauppeldi fyrir gömlum og klassíkum bíómyndum. Fjölskyldan fer svo saman í bíó þegar farið er í höfuðborgina.
Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?
Það er ekki lágvöruverslun í mínu bæjarfélagi. Hér er Kjörbúðin. En það er margt hægt að gera til að lækka kostnaðinn við matarinnkaup. Til dæmis nýti ég mjög mikið að kaupa matvörur þegar þær eru komnar á afslátt vegna dagsetningar. Það er mikill sparnaður. Og ekki er verra að þá er þeim mat ekki hent. Það er ótrúlegt hvað sumar matvörur endast lengi eftir söludag. Hef átt rjóma sem er komin mánuð frá síðasta söludegi og það er í fínu lagi. Og skyr geymist jafnvel í marga mánuði. En nýti svo allar ferðir til að fara í Bónus þegar maður á ferð þar sem Bónus er. Bónus er í næsta bæjarfélagi og gerir maður sér stundum ferð þangað, en það hefur minnkað þar sem bensínið er dýrt. Svo ræktum við okkur gulrætur sem duga nánast allt árið. Ræktum líka kartöflur, grænkál og höfum verið að prófa okkur áfram í grænmetisræktun. Reyni líka að baka fyrir krakkana bakkelsi til að taka í nesti í skólann og fleira í þeim dúr í staðinn fyrir að kaupa tilbúið. Elda líka frá grunni til dæmis súpur og þessháttar.
Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?
Já hér flokkum við allt rusl. Og við erum mjög dugleg að flokka. Ég endurnýti líka vel föt. Hendi nánast engu og hef getað notað fötin af börnunum aftur og aftur. Stór fjölskyldan býr líka hér í Grundarfirði og við erum dugleg að láta fötin fara á milli barna. Einnig eru öll okkar húsgögn í stofu og eldhúsi, keypt notuð eða fengið gefins. Geymi poka undan brauði og slíku og nota undir afganga og ýmislegt sem þarf að nota. Og í garðinum höfum notað vörubretti til að smíða matjurtakassa og kofa fyrir börnin. Held líka að endurnýtnin komi frá mínum uppeldi í sveitinni. Þar var allt nýtt og engu hent. Ráð mitt er að henda ekki mat þó að hann sé komin á síðasta söludag. Láttu bragð og lyktarskyn skera úr hvort maturinn sé í lagi.
Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?
Ég reyni að nýta vel tilboð. Kaupi mat eins og ég sagði á 50 prósent afslætti þegar hann er komin á dagsetningu og þegar tilboð koma. Og reyni að kaupa bara föt þegar þau koma á tilboði og jafnvel gjafir.
Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?
Við leyfum okkur ekki mikin óþarfa. Það er bara ekki svigrúm til þess á stóru heimili.
Skiptir umhverfisvernd þig máli?
Já mjög miklu. Á heimilinu er allt flokkað. Matarafgangar fara í lífrænt sem verður svo að moltu. Og reyni að nýta hlutina sem lengst og kaupi ekki óþarfa.
Annað sem þú vilt taka fram?
Það er mjög sniðugt að láta unglingana sína sem hafa verið í vinnu og eiga pening að kaupa stundum í kvöldmatinn. Við höfum gert það stundum og þau læra helling af því og sjá hvað það kostar að kaupa inn mat og hvað þarf að hafa í huga. Þau eru stundum mjög hissa yfir því hvað hlutinir kosta mikið og hvað það kostar að halda út heimili.
Að lokum deilir Bryndís með okkur þessari dýrindis uppskrift frá mömmu sinni. En hún er ein af bestu skúffukökum í heimi. Hér er hún étin upp til agna á engri stund. Þægileg uppskrift sem ekki mikil fyrirhöfn að gera.
300 gr sykur
300 gr hveiti
3 egg
150 gr brætt smjörlíki
6 msk kakó
2 tsk lyftiduft
1 tsk natrón
3 dl mjólk, smá salt
Allt hrært saman í 5 mín. bakist við 200 gr í 25 min.
Krem: 1 pk flórsykur, 3 msk kakó, 150 gr brætt smjörlíki, smá kaffi, vanilludropar og smá heitt vatn til að fá rétta áferð á kremið.