Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Bryndís Haraldsdóttir: „Mikið var um sjálfsvíg“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef starfað í Sjálfstæðisflokknum í um 20 ár, fyrst á vettvangi sveitarstjórnar og svo nú á þinginu. Ég hef tröllatrú á flokknum bæði grunnstefnu hans – sem ég tel bestu stefnuna fyrir Ísland og íslenska þjóð, enda hefur það einmitt sýnt sig að framfarir okkar á síðustu 100 árum hafa leitt íslensku þjóðina úr sárri fáttækt í að vera það samfélag í heiminum þar sem velsæld er hvað mest – en ég hef líka svo mikla trú á grasrótinni og flokksstarfinu, enda flokkurinn stór og hefur á að skipa öflugu fólki um land allt sem vinnur undir merkjum flokksins í sínu samfélagi,“ segir Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður sem hefur gefið kost á sér sem ritari Sjálfstæðisflokksins. „Ég hef líka lengi verið á þeirri skoðun að við getum gert enn betur. Starf ritara snýr fyrst og síðast að innra starfi flokksins. Ég hef ýmsar hugmyndir um hvernig hægt er að tengja betur saman fulltrúa okkar í sveitarstjórnum um land allt og hvernig hægt sé að styðja þetta fólk betur og tengja okkur öll sem á vettvangi flokksins vinnum.“

Bryndís Haraldsdóttir
Á COP 26 í Glasgow.

Horft sé til hagsmuna barnsins

Hvers vegna fór Bryndís upphaflega í stjórnmál?

„Upphaflega fór ég í stjórnmál í sveitarfélaginu mínu, Mosfellsbæ, vegna þess að ég brann fyrir leikskólamálum og skólamálum; og geri það að sjálfsögðu enn. En sem ung móðir fann ég fyrir því gati sem til staðar var frá því fæðingarorlofi sleppti, dagforeldrar og svo leikskóli. Það hefur margt batnað í þessum málaflokki síðan þá en dóttir mín er 22 ára. En því miður heyrum við enn sögur af því hversu margar fjölskyldur eru í vanda og á það þá sérstaklega við um Reykjavík.

Hér er um stærsta jafnréttismál kynjanna að ræða.

Fáir orlofsdagar ungs fólks og svo margir skipulagsdagar og lokanir leikskóla á sumrin eru þættir sem mér fannst algjörlega ótækir. Ég veit að mörg sveitarfélög eru að standa sig vel í þessum efnum en önnur ekki en svo hefur fæðingarorlofið auðvitað verið lengt. En þrátt fyrir að margt sé vel gert horfum við enn fram á að verkefnin eru ærin. Þekkingin á mikilvægi leikskólastigsins hefur líka aukist mikið og það eru krefjandi og spennandi verkefni fram undan í uppbyggingu leikskólastigsins fyrir yngri börn. Við þurfum að tryggja að ávallt sé horft til hagsmuna barnsins og að þau njóti sem mestra samvista við báða foreldra og að foreldrar fái þjónustu við hæfi. Öflug og góð þjónusta við börn á þessum aldri er bæði mikilvæg fyrir þau og þroska þeirra en líka fyrir fjölskyldurnar og hér er um stærsta jafnréttismál kynjanna að ræða.“

Hvers vegna kaus Bryndís að ganga í og vinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn?

- Auglýsing -

„Ég setti mig vel inn í málin áður en ég skráði mig í flokkinn. Ég skoðaði stefnur þeirra flokka sem þá voru til og komst fljótt að því að grunnstefna Sjálfstæðisflokksins talar til hjarta míns. Trú flokksins á einstaklinginn er líklega það sem mér finnst mikilvægast; það að trúa á markaðinn og takmörkuð ríkisafskipti er það sem talar til hjarta míns vegna þess að ég trúi því að sú leið sé best til að tryggja hér öflugt velferðarríki.“

Bryndís Haraldsdóttir
Á þingi þingforseta smáríkja í Svartfjallalandi.

 

Loftslagsbreytingar

- Auglýsing -

16 ára reynsla úr sveitarstjórnarmálum, hún var bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ í átta ár og varabæjarfulltrúi í átta ár þar á undan.

„Ég var lengst af formaður skipulagsnefndar á mesta uppbyggingarskeiði í bæjarfélaginu. Ég var jafnframt formaður bæjarráðs, sat sem forseti bæjarstjórnar, var stjórnarformaður Strætó, sat í svæðisskipulagsnefnd og hef gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á vettvangi sveitarfélaganna. Árið 2016 varð ég svo þingmaður, en ég hafði reyndar verið varaþingmaður á árunum 2005-2007, ég er formaður allsherjar og menntamálanefndar og sit í fjárlaganefnd. Áður hef ég setið í efnahags- og viðskiptanefnd, utanríkismálanefnd og verið varaforseti þings. Í þingstörfunum hefur dýrmæt reynsla mín úr sveitarstjórn nýst vel.“

Bryndís segist lengi hafa haft mikinn áhuga á umhverfismálum. „Á vettvangi sveitastjórna áttaði ég mig fljótt á því hvað skipulagsmálin skipta miklu máli þegar kemur að umhverfismálum. Ég held að því miður höfum við of seint farið að horfa til aðlögunar að loftslagsbreytingum. En á sama tíma og við þurfum að minnka útblástur og áhrif okkar á náttúruna þá þurfum við líka að sætta okkur við þær breytingar sem orðnar eru og munu verða. Við verðum að hugsa í öllu skipulagi og innviðauppbyggingu um það hvernig við tryggjum öryggi okkar. Líklega eru loftslagsbreytingar okkar helsta vá.

Við þurfum að verjast ógninni og nýta tækifærin.

Ísland er norðurslóðaríki og á norðurslóðum sjást best þær gríðarlegu breytingar sem eru að verða. Þar hlýnar þrisvar sinnum hraðar en annars staðar á jörðinni og áhrifin eru eftir því. Þessar breytingar eru ógnvekjandi en í þeim geta líka falist ákveðin tækifæri. Við þurfum að verjast ógninni og nýta tækifærin,“ segir Bryndís sem leiddi þverpólitíska nefnd sem vann að endurskoðaðri norðurslóðastefnu sem þingið samþykkti á síðasta kjörtímabili.

Bryndís Haraldsdóttir
Á hlaupum á Fimmvörðuhálsi.

Elskar fjallahlaup

Bryndís er þriggja barna móðir úr Mosfellsbænum en þar hefur hún búið frá því hún flutti frá Akureyri 10 ára gömul. „Ég einfaldlega elska Mosó. Þetta átti að vera stutt stopp hjá foreldrum mínum sem leituðu að íbúð í Reykjavík en ég var fljót að finna mig í fallegu Mosfellssveitinni og fékk að ráða. Og hér er ég enn og þau reyndar líka.“

Hvað með menntun og fyrri störf?

„Ég fór í Verzló og svo í gamla Tækniskólann og útskrifaðist þaðan með B.sc í alþjóðamarkaðsfræði. Síðar hef ég svo lært opinbera stjórnsýslu en ég skulda enn ritgerðina þar. Ég starfaði lengi hjá Nýsköpunarmiðstöð við að aðstoða frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki meðal annars í að leita samstarfsmöguleika og styrkja hjá Evrópusambandinu. Ég hef líka staðið í atvinnurekstri sjálf en stjórnmálin hafa átt hug minn allan í nokkuð langan tíma.“

Hef hlaupið Laugaveginn, klárað Landvættinn og alla tindanna í Mosó.

Hvað með áhugmál þegar vinnunni og stjórnmálavafstri sleppir?

„Ég fæddist árið 1976 og er því með réttu miðaldra, eitthvað sem ég er enn að ná utan um en áhugamálin eru allavega mjög miðaldra. Ég elska fjallahlaup og útivist og skrái mig í alls konar vitleysu og hef hlaupið Laugaveginn, klárað Landvættinn og alla tindanna í Mosó og er því stoltur tindahöfðingi. Núna leita ég að næstu áskorun.“

Verzló, gamli Tækniskólinn og opinber stjórnsýsla. Og alþingismaður í dag. Hverjir voru draumarnir áður fyrr?

„Ég hefði aldrei spáð því að ég myndi starfa á vettvangi stjórnmála; ég sá frekar fyrir mér að vera í atvinnulífinu og helst í eigin atvinnurekstri en vonum að ég eigi eftir að láta þá drauma líka rætast. Ég hef lengi sagst vilja verða prestur þegar ég verð stór. Annar afi minn, Rúnar Guðbjartsson, er mér mikil fyrirmynd en hann var flugstjóri sem á seinni árum fór svo að læra sálfræði og endaði starfsferilinn sem sálfræðingur. Hver veit nema draumar mínir um að verða prestur á Snæfellsnesi verði að veruleika einn daginn.“

Bryndís Haraldsdóttir
Dansað við afa á 85 ára afmæli hans.

Njóta lífsins

Hvaða lífsreynsla hefur mótað alþingismanninn?

„Ég held að lífsreynsla mín á unglingsárunum þegar mikið var um andlát ungs fólks í kringum mig sé líklega það sem hafi hvað mest markerað mig. Mikið var um sjálfsvíg og það er sárara en tárum tekur að einhver nákominn telji það vera best að kveðja þennan heim. Það er bitur og sár reynsla og eitthvað sem án ef hefur haft áhrif á mig og mótað mig sem persónu. Mér er umhugað um fólkið í kringum mig og vil leggja mitt af mörkum til að fólkinu mínu líði vel og vera aðili sem hægt er að leita til ef eitthvað bjátar á. Stundum tekst það vel en örugglega ekki alltaf.

Annars held ég að mikilvægast lexían sé að njóta lífsins þegar hægt er því það eina sem er öruggt í þessum heimi er að við munum öll deyja. Sem betur fer vitum við ekki hvenær við verðum kölluð til annarra starfa og þurfum því að standa okkur þar til að því kemur og muna að njóta á meðan.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -