Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Bryndís sendi lögreglunni spurningu í SMS – Stuttu síðar henti sprengjusveit henni út

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bryndís Jóhannesdóttir grunnskólakennari upplifði ekki hefðbundið laugardagskvöld um nýliðna helgi. Hún fékk í heimsókn lið víkingasveitarinnar og sprengjusveit Landhelgisgæslunnar til að gera handsprengju óvirka heima hjá sér.

Bryndís fjallar um upplifun sína í færslu á Facebook en allt hófst þetta með því að hún sendi lögreglunni smáskilaboð. Handsprengjuna fann hún við tiltekt í gömlu dóti hjá sér. Svona lýsir Bryndís atvikinu:

„Hvað gerði ég á laugardagskvöldið? Nei…ég fór ekki á djammið og ég horfði ekki heldur á Helga Björns! Ég var í öðru – já allt öðru! Á innan við hálftíma tókst mér nefnilega að ræsa út bæði Víkingasveitina sem og sérhæfða sprengjusveit Landhelgisgæslunnar. Af hverju komu þeir til mín en ekki þín? Jú …ég sendi pínulítil og saklaus smáskilaboð á lögguna fyrr um kvöldið sem byrjuðu einhvern veginn svona: „ Gott kvöld … ég er að velta fyrir mér hvort gömul handsprengja sem ég er með í fórum mínum geti hugsanlega verið virk?…“ segir Bryndís og heldur áfram:

„Ég ætlaði reyndar upphaflega ekki að vera með svona yfirgang. Vissi að löggan var á leiðinni og til stóð að spjalla við laganna menn í rólegheitum í forstofunni og jafnvel bjóða þeim kaffi, þrátt fyrir að eiga ekki kleinuhringi. En öðruvísi mér áður brá. Löggan mætti. Þegar ég opnaði dyrnar stóðu tveir gráklæddir Víkingasveitarmenn fyrir utan í kuldanum. „HA! … Rýma húsið? … Strax? … Í alvöru?“

Í samtali við Mannlíf segir Bryndís að faðir hennar hafi upphaflega átt handsprengjuna og í ljós kom að búið var að fjarlægja hleðsluna úr sprengjunni. „Hann var flugkennari uppi á Velli um 1970. Báðir afar mínir unnu þar líka og ég er ættuð af Suðurnesjunum svo það var ekki óalgengt að maður sæi alls konar dót sem tengdist hernum og fékkst kannski ekki í almennum verslunum Það var búið að fjarlægja hleðsluna úr henni, en pinninn var a sínum stað sem og botninn. Var mjög heilleg sem sagt,“ segir Bryndís.

Bryndís segir að hún hafi fljótt áttað sig á alvöru málsins og að sprengjusérfræðingarnir litu málið alvarlegar hendur en hún sjálf í upphafi. Við tók fjörug atburðarrás hjá fjölskyldunni. „Svartur ómerktur jeppinn á bakvið þá var heldur ekkert að grínast. Það var því ekki um annað að ræða en að hafa hraðan á og því greip ég ullarpeysu af næsta stól, sveipaði yfir náttfötin og tróð mér berfætt í útiskó. Sonurinn stökk í stuttbuxur og bol á meðan ógreiddur og ennþá áttavilltur kallinn fann bíllyklana,“ segir Bryndís og bætir við:

- Auglýsing -

„Við drifum okkur inn í bíl, bökkuðum í flýti frá húsinu og komum okkur fyrir aðeins neðar í götunni. Þar héngum við í bílnum í rigningu og myrkri og fylgdust með atburðarásinni. Við biðum gáttuð í bílnum. Nokkru síðar silaðist stór svartur sendibíll hljóðlega inn götuna. Sprengjusveitin varn svarta grímu og svartan hjálm, vippaði sér út og að bílnum okkar.“

Bryndís segir að sérsveitarmennirnir hafi lofað sér góðri umgengni þannig að ekki yrði neinn sóðaskapur af heimsókninni. Sprengjan var á endanum fjarlægð. „Nágrannar í gluggum bættust nú í áhorfendahópinn og sáu hvar brynjaðir sprengjusérfræðingarnir gengu að húsinu okkar. Annar þeirra dró á eftir sér, að því er virtist, þunga tösku á hjólum. Svo hurfu þeir inn.  Með reglulegu millibili komu sprengjusérfræðingarnir út úr húsinu, vesenuðust eitthvað fyrir framan útidyrnar, slökktu og kveiktu ljósið í forstofunni og fóru svo inn aftur.

Eftir þrjár svona atrennur virtust þeir sáttir og yfirgáfu húsið með hjólatöskuna í eftirdragi. Annar þeirra gekk rólega að bílnum okkar á meðan hinn tróð töskunni inn í sendibílinn. Hættan var liðin hjá. Niðurstaða rannsóknar leiddi í ljós að okkur var óhætt að fara aftur inn. Á jafn hljóðlátan hátt og þessir einkennisklæddu menn höfðu mætt á svæðið rúmum klukkutíma fyrr, hurfu þeir allir aftur út í myrkrið. Við fjölskyldan fórum aftur inn og héldum áfram fyrri iðju … nokkurn veginn.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -