Áhrifavaldurinn Brynja Dan Gunnarsdóttir skipar annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík norður í Alþingiskosningum nú í haust, en Brynja er með BS-gráðu í rekstrarverkfræði og rekur eigið fyrirtæki samhliða því að sitja í stjórn Barnaheilla. Nýverið tók þessi þróttmikla unga kona svo sæti í stjórn Íslenskrar ættleiðingar en sjálf var Brynja ættleidd frá Sri-Lanka skömmu eftir fæðingu.
Í einlægu og áhrifamiklu helgarviðtali við Mannlíf ræðir Brynja meðal annars kynþáttafordóma á Íslandi og segir þannig hafa verið sérstakt að alast upp hér á landi sem ættleidd dóttir og stúlka með dekkri húð en flestir jafnaldrar hennar. Hún segist fagna fjölbreytileikanum og taka því fagnandi þegar fólk spyrji hvaðan hún er og vilji fræðast og læra. Henni þyki það alls ekki móðgandi.
Fólk hefur spurt mig hvort það megi koma við til dæmis hárið á mér og húðina og ég skil það svo vel. Ég hef alveg viljað snerta til dæmis afróhár því það er eitthvað sem ég er ekki með og mér finnst það vera fallegt; mann langar að snerta til að finna eitthvað sem er manni framandi og læra.
Þó hefur þessi viljasterka unga athafnakona fengið sinn skerf af fordómum og neikvæðu áreiti hér á landi vegna litarháttar síns og er einlæg í frásögn sinni en hún varð meðal annars fyrir þeirri hörmulegu reynslu að íþróttakennari nokkur réðist gegn henni með orðum í skólaferðalagi og krafðist þess að Brynja og samnemandi hennar tækju bæði 100 armbeygjur vegna litarháttar.
Hann tók okkur tvö dökku fyrir og lét okkur gera 100 armbeygjur. Ég gat það ekki þá og ekki nú en bekkjarfélagar mínir voru fljótir að rísa upp á afturfæturna okkur til varnar og þessi kennari var látinn fara eftir þetta atvik.
Þá minnist Brynja þess að vera vísað úr röð á skemmtistað en dyravörðurinn kallaði níðyrði yfir mannfjöldann og átti þar við Brynju sem lét sér fátt um finnast.
Mér var einu sinni sagt að fara inn bakdyramegin á skemmtistað; „Negrarnir inn að aftan!“ var kallað yfir röðina. Ég svo sem tók það ekki til mín þó viðkomandi hafi vissulega verið að tala við mig en ég er ekki svört og mér fannst það lýsa fáfræði hans meira en eitthvað annað.
Helgarviðtal MANNLÍFS við Brynju má lesa HÉR