Fyrrum landsliðsmaðurinn Brynjar Björn Gunnarsson hefur nú verið rekinn úr starfi þjálfara karlaliðs Grindavíkur í knattspyrnu. Þetta staðfestir hann við vefmiðilinn 433.is – segir ákvörðunina hafa komið sér mjög á óvart.
Að sögn Brynjars tengist brottreksturinn ekki árangri liðsins undir hans stjórn:
„Ég er ekki búinn að hugsa mikið um þetta, bara sofa og vakna í morgun og ekki fara yfir stöðuna. Kom á óvart, útskýring var ekki fá stig eða þjálfunin eða undirbúningur eða æfingar. Útskýringin var samskipti við annan flokkinn,“ sagði Brynjar.
Hann segir að málið tengist því að einn ungur leikmaður Grindavíkur – sem á föður sem er háttsettur í félaginu, hafi ekki verið í leikmannahóp um síðustu helgi; útskýrir hvað gekk á.
„Það var ekki spilatími þess drengs. Það kom upp óheppilegt atvik síðustu helgi, þar sem 19 leikmenn voru í hóp. Við erum með meiddan leikmann og taka ákvörðun hverjir spila og eru á bekk, það tekur smá tíma og orku. Aðstoðarþjálfarinn var veikur og ég var einn á svæðinu, það verður sú atburðarrás að gleymdist að láta 19 manninn vita að hann sé ekki í hóp. Hann var á skýrslu sem liðstjóri, hann átti að vera með okkur. Það gleymdist í látunum fyrir leik, það var óheppilegt og leiðinlegt fyrir strákinn. Það var upphafið og endirinn af þessu hjá mér,“ segir svekktur Brynjar sem hefði viljað halda áfram en sendir Grindvíkingum góða kveðju:
„Það er búið að taka ákvörðun og henni verður ekki breytt. Frá mínu sjónarhorni hefði mátt halda áfram. Ég vil þakka fyrir minn tíma og því góða fólki sem ég kynntist, ég vil þakka Stjörnunni, Álftanesi og fleiri liðum fyrir að hjálpa okkur í vetur. Stjarnan voru fyrstir að heyra í mér og bjóða mér aðstöðu, Álftanes og Blikarnir. Blikarnir í körfunni og Víkingar núna og við endum þar. Í þennan tíma frá desember og fram í apríl, þá var Stjarnan og Álftanes að hjálpa okkur rosalega mikið.“