Laugardagur 21. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Brynjar er hetja sem glímir við erfiðar minningar: „Svo svakalegt þegar þeir komu með barnið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þjóðin hreifst mjög af framgöngu fjögurra vegfarenda við það hörmulega slys þegar fjölskylda frá Flateyri lenti utan vegar í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi. Fjölskyldan var að koma úr millilandaflugi og mátti ekki gista syðra vegna sóttvarnareglna og ók því af stað vestur undir nóttina í skammdegi janúarmánaðar.

Um nánast allt Ísafjarðardjúp liggur vegurinn með fram sjónum sem í skammdeginu er hrollkaldur og jafnvel ís á fjörðum. Svo hörmulega vildi til að fjölskyldan, hjón með lítið barn, hafnaði utan vegar í glerhálku og úti í sjó.

Einn þeirra er kom á vettvang og lagði mikið að mörkum við þessa frækilegu björgun var Brynjar Örn Þorbjörnsson verktaki á Vestfjörðum. Kvöldið áður var hann að ljúka vinnu inn í Djúpi og hugðist halda heim á leið á vörubifreið sinni, en eitthvað varð til þess að hann ákvað að fresta för til næsta dags.

Íslenska þjóðin var slegin yfir harmleiknum í Skötufirði. Litli drengurinn, Mikolaj Majewski, var aðeins 18 mánaða. Móðir hans, Kamila Majewska, lést einnig eftir hið hræðilega slys en Tomek Majewska, faðir drengsins og eiginmaður Kamila, komst lífs af.

„Ég veit ekki hvað olli því að ég frestaði heimferðinni en það var eins gott því að ekki veitti af aðstoð þarna á vettvangi slyssins. Það voru þrír komnir þarna á undan mér og búnir að vinna þrekvirki í köldum sjónum þegar ég kom að. Ég hef farið á nokkur skyndihjálparnámskeið þannig að ég stóð nokkuð vel að vígi við fyrstu hjálp. Það var ótrúlega erfitt að bíða hjálparvana eftir aðstoð og klukkustundin ótrúlega lengi að líða.“

„Það var svo svakalegt þegar þeir komu með barnið, ég mun aldrei gleyma því. Það mun fylgja mér út lífið.“

Á undan Brynjari á slysstað voru Einar Valur Kristjánsson forstjóri útgerðarfélagsins Gunnvarar í Hnífsdal og Kristján G. Jóakimsson markaðsstjóri fyrirtækisins.
Þarna var líka Eiríkur Ingi Jóhannsson, hetjan sem bjargaðist í vitlausu veðri undan ströndum Noregs er togarinn Hallgrímur fórst þar 2012.
„Þessir þrír voru búnir að vinna afrek við mjög erfiðar aðstæður egar ég kom á staðinn. Þeir unnu sannkallaða hetjudáð.“

Brynjar segist hreinlega ekki vita hvernig honum líði eftir þessa þrekraun, það sitji auðvitað í honum að koma að svo alvarlegu slysi þar sem ung kona og barn létust og eftir sitji ungur faðir í sorg með hruninn heiminn.

- Auglýsing -

„Á meðan á þessu stóð tók ég til dæmis ekkert eftir því hvort mér var kalt. Það var ekki fyrr en ég skipti um föt í bílnum að ég áttaði mig á að stígvélin voru full af köldum sjó og mér var öllum kalt en þá var björgunarfólk komið og allt í lagi að verða kalt.
Þetta verður manni erfið minning, það var svo svakalegt þegar þeir komu með barnið, ég mun aldrei gleyma því. Það mun fylgja mér út lífið,“ segir þessi harðgerði björgunarmaður.

Brynjar leggur mikla áherslu á að fólk, allur almenningur fari á skyndihjálparnámskeið til að geta betur brugðist við ef það kemur að slysum, sjálfur starfar hann með Björgunarfélagi Ísafjarðar og hefur farið þar á námskeið auk þess að fara í Slysavarnarskóla sjómanna.

„Biðin innfrá var mjög óvenjuleg fyrir mig því venjulega er ég í hópi þeirra sem beðið er eftir þegar björgunarfélagið kemur til hjálpar. Nú veit ég enn betur hve mikilvægt er að bregðast fljótt við. En þeir sem voru komnir þarna að slysinu á undan mér eru sannkallaðar hetjur, ég get eiginlega ekki lýst aðdáun minn i á framgöngu þeirra,“ segir Brynjar Örn sem sjálfur verður að teljast harðgerður nagli og úrræðagóður í betra lagi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -