Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-4.2 C
Reykjavik

Brynjar kominn með nóg af sóttvörnum: „Öll gagnrýni kaffærð með hræðsluáróðri“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist sóttvarnaraðgerðir hérlendis ekki hafa skilað þeim árangri sem stefnt var að. Þær hafi einkennst af óskilvirku alræði og enginn Íslendingur kjósi að búa í alræðisríki. Meðvirkni hans með sóttvarnaraðgerðunum er hér með lokið.

Þetta segir þingmaðurinn í aðsendri grein á Vísi. Þar segist hann alls ekki vilja gera lítið úr veirunni en að öll gagnrýni á sóttvarnaraðgerðirnar sé kaffærð með hræðsluáróðri. „Í alræði hefur ríkið afskipti af öllum þáttum mannlífs, bæði einkalífs og opinbers lífs. Fáir sem taka afstöðu af yfirvegun og stillingu kjósa að búa í alræðisríki. Sagan hefur enda sýnt að alræði þrífst ekki nema valdhafar beiti hræðsluáróðri og útskúfun og smánun þeirra sem ekki vilja ganga fullkomlega í takt,“ segir Brynjar og bætir við:

„Ríkisvaldið hefur stigið stærri skref til alræðis undanfarna mánuði en nokkru sinni fyrr í okkar sögu. Reistar hafa verið skorður við hvers kyns mannamótum nema fámennustu afmælis- og skírnarveislum í heimahúsum. Atvinnulífið hefur verið lamað að stórum hluta. Heilbrigt fólk sætir í þúsundum einhvers konar stofufangelsi(nefnt sóttkví) stundum af lítilli eða engri ástæðu og án nokkurra raunhæfra úrræða til að véfengja ákvarðanir um slíkt. Þeir sem smitast sæta einangrun lengur en þekkist í öðrum löndum. Börn mega ekki leika sér saman eða stunda íþróttir við skipulagðar aðstæður. Allir þurfa svo að ganga í takt og viðurlögin ef út af bregður er opinber smánun. Öll gagnrýni er kaffærð með hræðsluáróðri. Allt er þetta með eindæmum.“

„Alræði þrífst ekki nema valdhafar beiti hræðsluáróðri og útskúfun og smánun þeirra sem ekki vilja ganga fullkomlega í takt.“

Eftir því sem líður á faraldurinn er Brynjar sannfærðari að hér á landi hafi ekki verið brugðist rétt við í baráttunni við veiruna. Þegar fílhraustir togarasjómenn smituðust af veirunni sé hrópað eftir lögregluaðgerðum en það megi alls ekki gagnrýna sóttvarnaryfirvöld eða yfirmenn Landspítala. „Þessi veira er ekki slíkt neyðarástand sem réttlæti að setja blóðtappa í þjóðarlíkamann með svona almennum og íþyngjandi takmörkunum. Sá blóðtappi mun hafa miklu meiri áhrif á á líf okkar og heilsu til lengri tíma. Sjónarmið eins og þessi sem hér eru viðruð eru gjarnan afgreidd með vísan til fávisku eða þekkingarleysis. Beitt er og jafnvel misbeitt miskunnarlaust tölfræði um fjölda þeirra sem mun deyja og veikjast illa verði ekki farið í allar þessar aðgerðir. Síðan er málum stillt þannig upp að þeir sem efist um réttmæti aðgerða yfirvalda séu að dæma fólk til dauða eða að minnsta kosti sama um líf þess og heilsu,“ segir Brynjar.

Eins og áður sagði er meðvirkni Brynjars með sóttvarnaraðgerðunum lokið. „Ég vil búa í frjálsu samfélagi. Til að takmarka frelsið svona mikið þarf meira neyðarástand en þessa veira veldur og það sem er enn mikilvægara þá mega takmarkanir og þvinganir ekki hafa verri áhrif á líf okkar og heilsu til lengri tíma en veiran sjálf. Mér finnst þetta sjónarmið rökrétt og eðlilegt og þurfi ekki að kalla á útskúfun eða aðra opinbera smánun,“ segir Brynjar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -