Hörkudeilur hafa staðið á á milli lögmannsins Sveins Andra Sveinssonar og Brynjars Níelssonar, aðstoðarmanns dómsmálaráðherra, vegna fundar sem Brynjar átti með saksóknara Namíbíu í dómsmálaráðuneytinu. Sveinn Andri hefur krafið Brynjar skýringa á því á Facebook hvert hafi verið fundarefnið og hvort rætt hafi verið um málefni Samherjamanna sem sæta lögsókn fyrir meintar mútur í Namibíu. Brynjar segir fundinn hafa verið einkafund. Saksóknarinn hafi verið í einkaerindum.
„En af hverju er pólitískur aðstoðarmaður að funda með fulltrúum ákæruvalds frá Namibíu sem eru í embættiserindum á Íslandi?“ spyr Sveinn Andri á Facebook-síðu Brynjars.
Brynjar fullyrti þá að saksóknarinn og hans fólk hafi verið á Íslandi í sumarleyfi en dúkkað upp í ráðuneytinu. HAnn neitar að upplýsa um fundarefnið en segist hitta hina og þessa án þess að um sé að ræða embættiserindi.
„Sveinn A Sveinsson við getum orðað það þannig. Virkaði á mig eins og þau væru í sumarfríi og vildu heilsa upp á. Svona svipað og þegar ég og ráðherrann heilsum upp á Ögmund Jónasson vin okkar Það er ekki í opinberum erindagjörðum,“ svaraði Brynjar.
Ásökun um lygar
Sveinn Andri sótti fast að Brynjari um efni fundarins og tilurð en fékk ekki efnisleg svör.
Brynjar varði sig með því að Namibíumennirnir hefðu einfaldega bankað upp á í ráðuneytinu án þess að vita hvern þeir myndu hitta fyrir.
„Sveinn A Sveinsson embættiserindi gerast ekki þannig að bankað ér upp á og enginn veit að þú ert á staðnum,“ skrifar Brynjar og var umsvifalaust krafinn frekari skýringa á því og sakaður um lygar í leiðinni.
„Brynjar Níelsson þannig að þegar forstjóri Landhelgisgæslunnar óskar eftir fundi strax með ráðherra vegna einhvers sem ekki má bíða, er hann þá í einkaerindum í ráðuneytinu? Þú festist æ meira í eigin þvættingsvef,“ skrifar Sveinn Andri.
Málið verður sífellt dularfyllra eftir því sem líður á deiluna. Brynjar útskýrir þá fundinn með því að sendimennirnir kunni að hafa verið bæði í einkaerindum og opinberum.
„… Hann getur bæði verið í einkaerindum og opinberum. Eins og ég sagði áðan þá var þetta fólk ekki í heimsókn í opinberum erindagjörðum og þú mátt kalla þetta hvað sem þú vilt. Ég kalla þetta heimsókn,“ skrifar Brynjar aðstoðarmaður.
Deilan heldur áfram og færist í aukana.
Ásakanir um lygar og rangfærslur gengu síðan á víxl.
„Það er enginn að skrökva þótt menn líti mismunandi à hlutina. Ef þú hefðir setið þennan fund hefðir þú tæplega litið á að þetta fólk væri í embættiserindum“.
Undir miðnætti í gærtkvöld stóð deilan enn og var komin út í ásakanir á báða bóga.