Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mun ekki þiggja sæti á lista flokksins eftir að lent í fimmta sæti prófkjörs flokksins í Reykjavík í gær.
Sigríður Andersen mun ekki heldur gera kröfu um sæti á listanum eftir að hafa ekki náð að verða á meðal átta efstu í prófkjörinu.
Þau Sigríður og Brynjar hafa löngum verið nokkuð talin samstíga yst á hægri kanti Sjálfstæðiflokksins.
Úrslitin hjóta að teljast töluverð vonbrigði fyrir Brynjar og Sigríði sem bæði eru sitjandi þingmenn. Reyndar má telja útkomu flestra sitjandi þingmanna flokksins vonbrigði fyrir viðkomandi.
Skilaboðin skýr
Brynjar tekur undir það að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum. „En skilaboðin eru skýr. Ég get því kvatt stjórnmálin sáttur,“ segir Brynjar við mbl.is. Hann segir baráttuna um efsta sætið haft þau áhrif að aðrir hafi verið útlokaðir.
Hann segir að baráttan hafi verið eðlileg og ekkert að henni en þetta geti gerst hjá hinum sem berjist um næstu sæti, að færast neðar á listann en þeir stefndu að.
„Það verður eðlilega og náttúrulega talsverð smölun við svona aðstæður og þá þarftu að ýta öðrum út. Það segir sig sjálft,“ segir Brynjar.
Geri enga kröfu um sæti
Sigríður Á. Andersen segist vera þakklát fyrir þann stuðning sem hún hafi fengið undanfarin 15 ár.
„Maður þakkar auðvitað kærlega fyrir það þegar nokkur þúsund merkja við mann á kjörseðli þótt það hafi ekki dugað til að ná þeim árangri sem að var stefnt að þessu sinni. Ég mun láta kjörnefnd flokksins, sem vinnur úr niðurstöðunni, vita að ég geri enga kröfu um sæti á framboðslista flokksins“.
„Sem fyrr verð ég tilbúin til að leggja sjálfstæðisstefnunni lið hvar og hvenær sem er. Hún sameinar íhaldssemi og frjálslyndi á svo fallegan hátt. Ég óska Guðlaugi Þór og Áslaugu Örnu til hamingju með skýrt umboð til að leiða framboðslista flokksins í borginni. Diljá Mist og Hildur mega sömuleiðis vera stoltar af árangrinum,“ skrifar Sigríður á Facebook-síðu sinni.