Brynjólfur Þorkell Brynjólfsson skipar 3. sætið á lista Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu um stöðu mála í Afganistan að „fjölmargir þjóðfélagshópar hafa verið sniðgengnir og réttindi annarra hunsuð. Við Íslendingar höfum því verk að vinna við að bæta og laga íslenska velferðarkerfið sem hefur lekið eins og gatasigti undir núverandi ríkisstjórn,“ og bætir við:
„Enginn heldur því fram að fjármunir fyrir slíkum umbótum verði teknir upp af götunni og því hætt við að margir sem hafa lagt ómælt til íslenska samfélagsins verði enn að bíða. Þar er hlutur sjúklinga á biðlistum og aldraðra hvað sársaukamestur.“
Hann heldur áfram og tengir ástandið í Afganistan við íslenska heilbrigðiskerfið og hefur lítinn áhuga á að fá afganska flóttmenn til Íslands:
„Afskipti Íslendinga hafa fyrst og fremst falist í mannúðarstarfi og að veita afgönsku þjóðinni aðstoð við að nútímavæða samfélagið. Starf sem nú virðist koma fyrir lítið. Íslendingar hafa ekki farið með vopnum inn í Afganistan en hafa svarað ákalli um aðstoð, sem meðal annars hefur komið frá heimamönnum, og látið fé af hendi rakna til uppbyggingar. Við eigum að aðstoða þau við að hjálpa Afgönum heima við. Það væri fráleit niðurstaða núna að fara að efna til sérstakra fólksflutninga frá Afganistan til Íslands í einhverri keppni ráðherra landsins við að beina sjónum frá því hvernig þeir eru að skilja við íslenska velferðarkerfið. Missum ekki sjónar á því sem skiptir mestu.“