Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Bubbi: „Normið er orðið það að það megi ráðast á homma og það megi ráðast á regnbogafólk“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bubbi Morthens er ekki bara vinsælasti tónlistarmaður allra tíma hér á Íslandi, heldur hefur hann ávallt verið í fararbroddi þeirra sem berjast fyrir réttindum minnihlutahópa og gegn fordómum í íslensku samfélagi.

Textarnir hans margir hverjir hafa í gegnum tíðina sýnt það svart á hvítu; Bubbi er bardagamaður sem ekkert aumt má sjá; er alltaf tilbúinn til að hjálpa þeim sem minna mega sín og hefur aldrei hikað við að tjá skoðanir sínar þótt þær hafi ekki alltaf talist vera „réttar.“

Á heimasíðu Bubba – bubbi.is eru nú til sölu textaverk kappans úr lögum sem bæði teljast án efa til „mótmælatexta“ – „Regnbogans stræti“ og „Strákarnir á borginni“ – lög sem allir Íslendingar þekkja nánast út og inn.

„Ástæðan fyrir því að ég gerði þetta er sú að það eru að berast fréttir til okkar úr heiminum um að umræðan um réttindi samkynhneigðra sé alltaf að verða þrengri og þrengri,“ segir Bubbi og nefnir Rússland, Ungverjaland og Pólland sem dæmi:

„Þetta getur gerst á meðan við sofum; við vöknum og normið er orðið það að það megi ráðast á homma; það megi ráðast á regnbogafólk; það megi ráðast á rauðhærða og hitt og þetta. Það er kveikjan fyrir því að ég valdi „Strákarnir á borginni“ og „Regnbogans stræti“ fyrir þessi verk,“ segir Bubbi og viðurkennir fúslega að hann þurfi líka aura eins og aðrir og þetta sé ágæt leið til að drýgja tekjurnar og minna um leið á baráttuna gegn fordómum og ofbeldi.

- Auglýsing -

Þrjátíu og sjö ár eru liðin frá því að Bubbi gaf út plötuna „Ný spor“ sem einmitt innihélt þennan risasmell, „Strákarnir á borginni.“ Lagið „Regnbogans stræti“ kom hins vegar út öllu síðar – á samnefndri plötu, árið 2019.

Textana fyrir þessi tvö áðurnefndu lög á Bubbi handskrifaða.

- Auglýsing -

Hann segir:

„Það er stutt í fordóma, bæði hér áður fyrr og líka nú til dags, því miður; við höldum að við séum rosalega frjálslynd en fasisminn er á sveimi í kringum okkur, bara við landsteinana.“

Hann segir söluna ganga vel en til eru sextán eintök af hverju verki – sem eru númeruð, árituð og vottuð. Þá er ramminn ekkert slor; kemur frá Þýskalandi og eru verkin varin gegn útfjólubláum geislum og segir Bubbi „að fólk getur verið með verkin í sólinni í hundrað ár án þess að neitt gerist við þau.

Þess má til gamans geta að á opnunarhátíð Hinsegin daga fyrir tveimur árum frumflutti Bubbi lagið „Regnbogans stræti“ og rifjaði upp kynni sín af Magga í Bristol; homma sem varð honum innblástur að þessu lagi.

„Hugmyndin um lagið „Regnbogans stræti“ kviknaði þegar ég sá regnbogamálaða götu á Seyðisfirði; regnboga sem var málaður í skjóli myrkurs eitt kvöldið. En innblásturinn var ekki síður Maggi í Bristol,“ sem var maður sem Bubba var ungum sagt að forðast því hann væri hommi. Hommi var orð sem var svo dökkt og ljótt í meðferð þeirra fullorðnu á þeim tíma. Bubbi lét sér þó ekki segjast og kynntist Magga og urðu þeir perluvinir. En það fór þó ekki vel fyrir þessum vini Bubba sem á endanum svipti sig lífi.

Heimild: dv.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -