Bubbi Morthens, tónlistarmaður með meiru, er ekki par hrifinn af aðgerðum yfirvalda ef marka má skrif hans um málefni Covid-19.
Hringbraut segir frá þessu í dag en ekki kemur fram hvar Bubbi skrifaði þessar hugleiðingar sínar. Spyr hann í skrifum sínum hvernig samfélagið eigi að ganga þegar 800 greinast á dag og enn fleiri eru í sóttkví.
„Hvernig ætla menn að láta þjóðlífið ganga fjöldi fær ekki að vinna mörg fyrirtæki eru lömuð vegna aðgerða yfirvalda andleg heilsa fer hrakandi drykkja og ofbeldi hefur aukist í covitinu frelsið hefur verið tekið af fólki smátt og smátt og alltaf eru svörin þau sömu veiran er óútreikanleg,“ skrifar Bubbi. Bætir hann því við að sífellt færri veikja en áður og andlát vegna veirunnar eru sjaldgæfari.
„Við vitum heilbrigðis kerfið er ekki í stakk búið til þess að takast á við þetta. Við höfum vitað það í ár. Hvernig ætla menn að tækla þetta og hver eru plönin til þess að koma hjólum lífsins í gang? svörin eru fá jafnvel engin enn sem komið er,“ skrifar Bubbi að lokum.