Maður að nafni Magnús Jónsson fór mikinn í gær innan Facebook-hópsins Það sem enginn viðurkennir. Hann er iðinn við að birta mjög umdeildar skoðanir sínar innan þessa hóps sem telur þúsundir Íslendinga. Nú gekk hann þó fram af flestum og mætti sjálfur Bubbi Morthens til að þagga niður í honum.
Magnús skrifaði í gær: „Hommar og lessur fá 11 milljónir árlega en Fjölskylduhjálp Íslands fær ekki neitt. Eðlilegra væri að Fjölskylduhjálpin fengi 11 milljónir og kynvillingarnir ekkert. Það er farið að gera þessum kynvillingum alltof hátt undir höfði.“
Bubbi var meðal þeirra fyrstu sem skrifuðu athugasemd við færsluna og sagði: „Þú gerir þér grein fyrir því þetta gætist verið flokkað sem hatursumræða og þú sóttur til saka.“ Við þetta bætti hann svo tákn af manni að gubba.
Á Twitter segir Bubbi að það þurfi að taka á svona hegðun. „Fordómar gegn samkynhneigðum fara vaxandi í Evrópu og þá er að finna hér,“ segir Bubbi og deilir skjáskoti af ummælum Magnúsar.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakana 78, þakkar honum kærlega fyrir stuðningin. „Takk fyrir að standa alltaf með okkur,“ segir Þorbjörg.