Búi Steinn Kárason og Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir komu fyrst í mark í 100 kílómetra hlaupi Hengils Ultra Trail 2019. Búi á tímanum 15:00:28 og Ragnheiður á 15:25:32.
Keppnin átti að hefjast á föstudagskvöld, en var frestað um sólarhring vegna veðurs. „Það var hárrétt ákvörðun að fresta, öryggi keppenda er númer eitt,“ segir Einar Bárðarson mótshaldari í samtali við Manníf hæstánægður með helgina. „Keppnin tókst frábærlega. Hengill Ultra verður í Hveragerði að ári, engin spurning!“
Keppendur frá 18 þjóðlöndum voru skráðir til leiks og komu þeir frá Bandaríkjunum, Kanada, Nýja-Sjálandi, Hong Kong, Póllandi og Slóveníu, og Íslandi að sjálfsögðu, svo nokkur lönd séu nefnd.
„Fólk sem ákveður að hlaupa 100K í haust rigningu og myrkri er úr einhverju sérstaklega sterku stuffi,“ segir Einar.
Hengill Ultra er lengsta utanvegahlaup á Íslandi, en þetta er í áttunda sinn sem keppnin fer fram. Metþátttaka í öllum hlaupavegalengdum keppninnar en keppt er í sex mismunandi keppnisgreinum eða hlaupavegalengdum. Vegalengdirnar eru 100, 50, 25, 10 og 5 kílómetrar og í ár var í fyrsta skipti keppt í 25 kílómetra boðhlaupi.
Keppendur í 100 kílómetra hlaupinu fóru af stað klukkan átta í gærkvöldi en keppni í 50 kílómetra hlaupi hófst klukkan átta í morgun.
Myndirnar tók Einar Bárðarson.