Stórsöngkonan Jóhanna Guðrún Jónsdóttir og eiginmaður hennar, Davíð Sigurgeirsson, hafa ákveðið að enda hjónaband sitt, en þau giftust í Garðakirkju fyrir þremur árum.
Jóhanna Guðrún er ein dáðasta söngkona landsins og hefur verið lengi; byrjaði sem barnastjarna og er ein af fáum slíkum sem náði að þróa og þroska feril sinn þannig að úr varð glæsilegur ferill sem sér ekki fyrir endann á. Til dæmis varð hún í öðru sæti Eurovision árið 2009 með laginu Is It True?
Jóhanna Guðrún og fyrrum eiginmaður hennar hafa unnið mikið saman, en Davíð er þrælmagnaður tónlistarmaður og afar fjölhæfur; frábær gítarleikari og útsetjari og þá hefur hann verið kórstjórnandi með miklum glans.
Jóhanna Guðrún og Davíð hafa ekki komið saman fram í þó nokkurn tíma og spilar án efa skilnaðurinn þar inn í. Tíminn mun einn leiða það í ljós hvort fyrrum hjónin muni halda tónlistarsamstarfi sínu áfram.