Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.1 C
Reykjavik

„Búinn að afplána mitt í pólitíkinni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bræðslan, sem hefur fest sig í sessi sem einn af helstu tónlistarviðburðum ársins, hófst í þessari viku en þetta er í fimmtánda sinn sem hún fer fram á Borgarfirði eystra. Fjöldi skemmtikrafta kemur fram á Bræðslunni. Þar á meðal hljómsveitin Doctor Spock sem stígur á stokk í kvöld og segist forsprakkinn Óttarr Proppé hlakka til að trylla lýðinn.

„Það leggst mjög vel í mig,“ segir Óttar, spurður hvernig leggist í hann að troða upp. „Spockinn er svona skepna sem er mjög gott að viðra og virkar aldrei betur enn á nýjum slóðum og aðeins öðruvísi. Við höfum alltof lítið spilað síðustu árin og er farið að klæja í þennan sirkus.“

Að hans sögn er þetta í fyrsta sinn sem bandið kemur fram á Bræðslunni. „Við höfum spilað í hjólhýsi í Vestmannaeyjum, á fótboltavelli í Færeyjum og aftan í flutningabíl á Hólmsheiði en þetta verður eitthvað alveg nýtt. Það hefur alltaf verið æðisleg tilfinning að ímynda sér að manni yrði boðið að spila þarna og sjá fyrir sér dýrðina. Loks rætist gamall draumur,“ segir hann og tekur fram að hann hafi ekki einu sinni komið á Bræðsluna sem tónleikagestur. „Ég hef hins vegar einu sinni komið til Borgarfjarðar áður og þetta er einhver fallegasti staður á landinu,“ bætir hann við. „Þá hitti ég einhverja krakka og spurði hvort það væri hægt að kaupa kaffi. „Nei, amma er ekki heima,” svöruðu þau. Við vonum bara að amman verði á staðnum núna,“ segir hann kíminn. „Treystum reyndar á það því kaffilaus verður Spockinn ansi hastur læf.“

„ ég er búinn að afplána mitt í pólitíkinni og þjóna mínum tilgangi þar og er svo glaður með að hafa endurheimt kennitöluna mína að ég læt hana ekki svo glatt af hendi aftur.“

Undanfarið hefur lítið farið fyrir Doctor Spock og aðspurður út í það segir Óttar að það sé þetta helst að meðlimirnir hafi elst og lítið sem ekkert selst. „Það er langbesta staðan fyrir hljómsveit, autt blað. Okkur klæjar mikið að spila meira og semja,“ segir hann en sveitin sendi síðast frá sér nýja plötu í fyrra. „Við héldum upp á það að ég slapp úr pólitíkinni og ráðuneytinu í fyrra með því að taka upp plötuna Leður. Við höfum alltof lítið fylgt henni eftir þannig að við tökum slatta af því efni í kvöld. Það er annars orðið svo langt síðan við vorum hvað aktífastir að þegar við tökum gamalt efni verður það eiginlega nýtt við rembinginn við að rifja það up. Síðan semjum við alltaf eitthvað á sviðinu. Það er nýtt efni sem enginn sér fyrir nema að það verður örugglega allt eignað Sálinni hans Jóns míns að gömlum Spock-sið. Við ættum auðvitað að vera að kynna lögin af væntanlegri plötu en það verður aðeins að bíða.“

Þannig að ný plata er í vinnslu? „Við erum búnir að borga fyrir stúdíóið þannig að fljótlega pöntum við tíma og förum svo að semja lög.“

Vonar að konurnar taki við í pólitíkinni

En hvað ertu annars búinn að vera að bralla fyrir utan tónlistina? „Ég er kominn aftur í bókabransann og er verslunarstjíori í Bóksölu stúdenta á Háskólatorgi,“ segir hann. „Það er góður vinnustaður og yndislegur bransi. Bækur laða að sér gott fólk, spekúlanta og hæfilega mikið af furðufuglum. Hér hittir maður alla og allskyns og lærir eitthvað nýtt á hverjum degi.“ Hann segir að í bókabúð afsannist því það bull að það sé ekkert nýtt undir sólinni. Það sé alltaf eitthvað nýtt undir þeirri stjörnu.

- Auglýsing -

Þig langar ekkert aftur í pólitíkina? „Nei veistu, ég er búinn að afplána mitt í pólitíkinni og þjóna mínum tilgangi þar og er svo glaður með að hafa endurheimt kennitöluna mína að ég læt hana ekki svo glatt af hendi aftur. Það er komið nóg af gulhærðum vitlesingum í pólitík. Ég vil gera mitt til þess að bæta ekki í þá flóru,“ segir hann, greinilega dauðlifandi feginn að vera laus. „Ég vona eiginlega að stelpurnar taki við þessu á sem flestum sviðum. Það væri langmest vit.“

Mætir vel undirbúinn á svæðið

Fyrir utan að vinna í Bóksölunni og að tónlistinni segist Óttarr síðan alltaf vera að vinna að einhverju sem tengist listum. „Að minnsta kosti óbeint ef ekki beint. Eftir ráðherramaraþonið og allt tímaleysi síðustu árin var orðið ansi djúpt á manni,“ segir hann. „Þessi misserin fara kraftarnir mest í að safni í sarpinn svo maður hafi einhverju að gjósa. Ég finn að það er farinn að aukast þrýstingurinn og mælast meiri leiðni í mér með hverjum deginum.“

- Auglýsing -

Talið berst þá aftur að fyrirhuguðum tónleikum sveitarinnar í kvöld og segir Óttar meðlimi hennar mæta vel undirbúnir á svæðið. „Það eina sem er óákveðið er hvernig við verjumst lundanum á sviðinu. Okkur skilst að það sé allt vaðandi í lunda þarna og hann laðast sérstaklega að blíðum tónum og fallegum klæðum eins og kría að hávöxnum og sköllóttum. Við munum annaðhvort spila í lundaheldum grímum, höfuðbúrum og/eða með mjög barðastóra hatta til að rugla fuginn í ríminu. Þetta getur ekki klikkað,“ segir hann léttur í lund.

Eitthvað sem þú vilt segja í lokin við væntanlega tónleikagesti kvöldsins í kvöld? „Þeir sem eru með óskalög geta lagt beint inn á okkur í Sparisjóði Garðabæjar og nágrennis eða hent gullmolum á sviðið. Við munum síðan árita líkamsparta beint eftir tónleikana og sitja fyrir með smábörnum á flugvellinum á Egilsstöðum 20 mínútur fyrir brottför á sunnudaginn. Ást og fiður.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -