Upplýsingafulltrúi Strætó býst við meiri röskun síðdegis.
Tíu leiðir Strætó stöðvuðust klukkan 07:00 í morgun og hófust aftur klukkan 09:00 vegna verkfalls bílstjóra sem keyra fyrir Strætó og vinna fyrir Almenningsvagna Kynnisferða.
Bílstjórar munu aftur leggja niður vinnu frá klukkan 16:00 til klukkan 18:00 síðdegis. Í samtali við mbl.is sagði Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, morguninn hjá Strætó hafa gengið „þokkalega“ en að búist sé við meiri röskun síðdegis, á háannatíma dagsins.
Þess má geta að verkföllin hafa áhrif á leiðir 12, 14, 15, 16, 17, 21, 24, 28, 35 og 36. Nánari upplýsingar má finna á vef Strætó.
Á vef Eflingar má lesa nánar um verkfallsaðgerðirnar.