Carmen Jóhannsdóttir segir í samtali við Mannlíf að hún vonist til þess að réttlætið sigri í máli Jóns Baldvins Hannibalssonar. Hún segir staðreyndirnar tala sínu máli og samsæriskenningar Jóns vera þvælu.
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot. Hann upplýsti það í aðsendri grein í Morgunblaðið. Meint kynferðisbrot á að hafa átt sér stað á heimili ráðherrans fyrrverandi á Spáni, en Carmen býr þar enn í dag.
Sjá einnig: Blásaklausar fiskverkakonur og Bryndís Schram
Carmen hefur áður lýst atvikinu svo: „Svo sat vinkona þeirra á milli þeirra og ég og mamma. Ég sat næst honum. Þegar ég stóð upp á einum tímapunkti og fór að skenkja í glösin, þá bara gerði kallinn sér lítið fyrir og byrjaði að strjúka á mér rassinn. Og ekkert bara rétt aðeins, heldur upp og niður strjúka á mér rassinn.“
Hún segir að málið allt sé sjálfskaparvíti hans. Um nýjustu varnargrein Jóns segir Carmen: „Þetta er þvæla. Ég vona að réttlætinu verði fullnægt og vona það fyrir allar hinar konur sem áttu ekki séns. Mál sem fóru ekki alla leið í kerfinu, út af firrningu og slíku. Staðreyndirnar tala sínu máli. Það er hægt að skrifa bækur en það breytir því ekki.“
Sjá einnig: Jón Baldvin ákærður fyrir kynferðisbrot gegn Carmen – „Hreinn uppspuni“
Hún segir ógeðfellt hvernig Jón beiti Bryndísi fyrir sig í málsvörn sinni. Jón Baldvin segir í grein í Morgunblaðinu að þetta sé „seinasta útspilið” í skipulagðri aðför að mannorði sínu og Bryndísar.
„Það er ofboðslega sorglegt. Hann afhjúpar sig, hvort sem hún tekur þátt í því eða ekki. Þetta er ákveðið ofbeldi að beita öðrum svona fyrir sig. Þeirra fjölskyldu harmleikur er kominn frá þeim sjálfum. Það er algjör staðreynd. Hann heldur þessu á lofti. Þetta er as low as you can go,“ segir Carmen.