Föstudagur 15. nóvember, 2024
1.6 C
Reykjavik

Covid 19 á Íslandi snýst um „daglegar æsifréttir um smittölur og róttækar sóttvarnaaðgerðir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þorsteinn Friðrik Halldórsson blaðamaður Markaðarins og hagfræðingur ritar áhugaverða grein þar sem fram kemur að hann er ekki á því að Covid 19 sé mikið vandamál; miklu frekar eitthvað sem sé gert alltof mikið úr og segir að „í háskólabænum Uppsölum í Svíþjóð, þar sem undirritaður hefur dvalið að undanförnu, ber fátt þess merki að veirufaraldur geisi.“

Hann bendir á að „þrátt fyrir að hlutfall bólusettra Svía hafi ekki enn náð helmingi er andrúmsloftið afslappað, veitingastaðir þéttsetnir og grímur sjaldséðar. Svíar hafa sætt sig við að veiran sé komin til að vera og lífið gengur sinn vanagang. Hingað geta allir Norðurlandabúar, hvort sem þeir eru bólusettir eður ei, ferðast óáreittir.“

Þorsteinn segir að faraldurinn beri ekki á góma í Uppsölum fyrr en hann hringi heim til Íslands:

„Þar hafa daglegar æsifréttir um smittölur og róttækar sóttvarnaaðgerðir séð til þess að veiran er enn efst á baugi. Að sitja í makindum á sænskum veitingastað og lesa fréttir íslenskra fjölmiðla og umræður Íslendinga á samfélagsmiðlum er eins og að gægjast inn í móðursýkisbólu. Hollara að leggja frá sér símann og njóta iðandi mannlífsins hér úti, segir hann og bætir við:

„Taugaveiklunin sem tröllríður öllu hefur sett mark á umræðuna sem er ekki af hinu góða. Fúkyrðaflaumur hefur iðulega mætt þeim sem leggja til að slakað verði á takmörkunum á landamærunum, og með miklu yfirlæti er hæðst að ungum og heilsuhraustum áhrifavaldi sem hefur ákveðið að afþakka bólusetningu.“

- Auglýsing -

Þorsteinn færir í tal að nú þegar hátt í 90 prósent fullorðinna Íslendinga hafa verið bólusettir sé tímabært að sleppa takinu á veirunni – eða öllu heldur losa takið sem veiran hefur á samfélaginu að hans mati og segir að við hér á landi þurfum að „einblína á að endurheimta lífskjör, bæði áþreifanleg og óáþreifanleg, sem hafa glatast. Gríman þarf að fjúka.“

Og bætir við:

„En áfram heldur farsinn. Stjórnvöld tóku í gær ákvörðun um að framlengja gildandi sóttvarnaaðgerðir sem fela meðal annars í sér að ungmenni þurfa að bera grímu fyrir vitum sér allan liðlangan daginn. Ákvörðunin varpar ljósi á hversu mikill skortur er á skynsömum og stefnuföstum stjórnmálamönnum.“

- Auglýsing -

Þorsteinn vill meina að þar sem alþingiskosningar eru á næsta leyti sé „fyrirséð að stjórnmálaflokkar í fylgiskrísu muni reyna að virkja óttann sem hefur gripið um sig. Verður þá í höndum fjölmiðla að krefjast skýrra svara um skoðun flokkanna á þeim aðgerðum sem gripið var til og sýn þeirra á sóttvarnamál.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -