COVID19-sjúklingur var fyrir nokkrum dögum fluttur í fyrsta skipti frá gjörgæsludeild Landspítala í Fossvogi til gjörgæsludeildar spítalans við Hringbraut. Á Facebook-síðu LSH er fjallað um flutninginn og birtar myndir sem Þorkell Þorkelsson ljósmyndari LSH tók.
Mikill viðbúnaður var á spítalanum vegna flutnings sjúklingsins, sem fluttur var í sérstöku einangrunarhylki, sem gjarnan er kallað „húdd“ af fagfólki. Með notkun hylkis af þessu tagi er tryggt að smitaðir einstaklingar smiti ekki aðra við flutning. Enn fremur varnar hylkið því að einstaklingar sem eru veikir fyrir smitist við flutning milli deilda eða stofnana.
Sérstaklega er gætt að öryggi sjúklinga við flutningana með þar til gerðum öryggisbúnaði eins og loftflæðis- og loftgæðanemum, festingum á hylkinu við notkun og öryggisbeltum fyrir sjúklinginn. Einnig er öryggi þeirra sem vinna með hylkið tryggt. Húddin uppfylla öryggisstaðla til notkunar á sóttvarnardeildum, í sjúkrabifreiðum, flugvélum og þyrlum.