Stéttarfélög áhafnarinnar á frystitogaranaum Júlíusi Geirmundssyni ÍS hafa tekið höndum saman og kært útgerðina til lögreglu. Tilefnið er frægur Covid-túr togarans þar sem útlit er fyrir að veikum sjómönnum hafi verið haldið á sjó svo vikum skiptir og neyddir til vinnu.
Hraðfrystihúsið Gunnvör, sem gerir út togarann, á von á kæru frá lögmönnum stéttarfélaganna. Snýst hún um að útgerðin hafi hunsað tilmæli yfirvalda og horft framhjá reglum um viðbrögð við hópsmiti sem upp kom um borð í togaranum. Í yfirlýsingu sem stéttarfélögin sendu frá sér telja þau framgöngu útgerðarinnar vítaverða og krefjast þess að fram fari sjópróf því rannasaka þurfi málið í kjölinn og draga menn til ábyrgðar.
Mannlíf greindi fyrst frá fjöldasýkingum Covid-19 um borð í frystitogaranum. Togaranum var skipað í land eftir þriggja vikna túr þar sem áhöfnin fullyrðir að hún hafi verið neydd til vinnu þrátt fyrir veikindin. Á endanum voru 22 af 25 manna úr áhöfn frystitogarans sýktir af Covid. Nokkrir áhafnarmeðlimir frystitogarans héldu í Covid-einangrun í skólabyggingu að Holti í Önundarfirði og meðal þeirra eru sjálfur Sveinn Geir Arnarsson skipstjóri.
Lögreglan á Vestfjörðum hefur gefið það út að lögreglurannsókn fari fram varðandi Covid-19 fjöldasmitin um borð í togaranum. Málið verður rannsakað sem sakamál. „Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hefur ákveðið að taka til rannsóknar atvik er varðar Covid-19 smit áhafnameðlima um borð í frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni ÍS-270. Skipið kom til jafnar á Ísafirði þriðjudaginn 20. október sl. Af þeim 25 áhafnameðlimum sem voru um borð reyndust 22 smitaðir af covid-19. Rannsókn lögreglunnar á Vestfjörðum miðar að því að afla upplýsinga og gagna um þá atburðarás sem varðar þessi smit og veikindi áhafnameðlima. Ótímabært er að gefa út frekari upplýsingar að sinni,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Yfirlýsing stéttarfélaganna í heild sinni:
Stéttarfélög skipverja á Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270 funduðu með lögmönnum í morgun um sameiginlegar aðgerðir vegna framgöngu Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. og hunsun á tilmælum yfirvalda um viðbrögð við hópsmiti um borð í togaranum. Stéttarfélögin telja þessa framgöngu vítaverða og hafa ákveðið bæði að kæra málið til lögreglu og krefjast þess að fram fari sjópróf. Stéttarfélögin eru sammála um að nauðsynlegt sé að rannsaka málið í kjölinn, fá allar staðreyndir upp á yfirborðið og draga þá til ábyrgðar sem stóðu að þeirri ákvörðun að halda skipinu til veiða í stað þess að bregðast við stöðunni með ábyrgum hætti.
Félag skipstjórnarmanna
Sjómannafélag Íslands
Sjómannasamband Íslands
Verkalýðsfélag Vestfirðinga
VM – félag vélstjóra og málmtæknimanna