Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var gómuð grímulaus í Melabúðinni. Þetta fullyrðir íbúi Vesturbæjar í færslu á hópi íbúa hverfisins á Facebook. Færslan var síðar fjarlægð.
„Ég skil þetta ekki. Með allt þetta drama í kringum Trump og Covid þá geng ég inn í Melabúðina með grímuna mína. Á mig starir á móti, án andlitsgrímu, engin önnur en Katrín Jakobsdóttir mjög sek á svipinn,“ skrifaði Cristopher Hickey í gær.
Verulega hertar samkomutakmarkanir tóku gildi á miðnætti um leið og neyðarstig almannavarna vegna Covid-19. Frá því sem verið hefur eru sóttvarnaraðgerðir hertar svo mjög að þjóðfélagið lamast á nýjan leik.
Cristopher undrast hvers vegna forsætisráðherrann hafi ekki sýnt betra fordæmi daginn fyrir hertar sóttvarnaraðgerðir landsins. „Eru ekki að taka við hertar aðgerðir á morgun? Ætti persónu í hennar stöðu ekki að leiða með góðu fordæmi? Eða er Vesturbærinn of kúl fyrir grímur, jafnvel þó þú sért forsætisráðherra?,“ segir Cristopher sem átti einnig leið í verslun Hagkaupa:
„Við fjölskyldan fórum tvisvar í Hagkaup í síðustu viku. Við vorum með grímurnar okkar en af þeim 100 viðskiptavinum sem við sáum voru aðeins tveir aðrir með grímur. Enginn virti fjarlægðartakmarkanir og brjálað að gera á nammibarnum. Reykjavík, þú uppskerð það sem þú sáir og það er synd að við hin þurfum að gjalda fyrir það.“
Mannlíf leitaði viðbragða Katrínar við frásögninni og til staðfestingar á því hvort hún hafi verið grímulaust í Melabúðinni í gær.
Katrín segir í svari við fyrirspurn Mannlífs að það sé vissulega rétt að hún hafi farið og keypt í matinn í gær. Hún segir að fáir hafi verið í búðinni og því taldi hún ekki þörf á grímu. „Það er mikilvægt að við tökum öll höndum saman um að fylgja þeim reglum sem gilda um sóttvarnir og ekki síður þeim ráðleggingum sem sóttvarnalæknir gefur. Í verslunum eru fjarlægðartakmörk og fjöldatakmörk en sóttvarnalæknir hefur ekki lagt þar til grímuskyldu. Um það gilda sömu reglur í dag og giltu í gær.
Það er rétt að ég fór og keypti í matinn í gær. Tiltölulega fáir voru í versluninni og því lítill vandi að gæta fjarlægðarmarka. Ekki er heldur grímuskylda á Alþingi en þangað mætti ég í morgun til að sitja fyrir svörum. Hins vegar er mikilvægt að fólk sé ávallt með grímu við hendina þannig að það geti sett upp grímur ef ekki er unnt að virða fjarlægðartakmörk. Þá er grímuskylda á ýmsum stöðum sem mikilvægt er að fylgja, eins og kunnugt er,“ segir Katrín.