Daði Freyr Pétursson er hrikalega svekktur eftir að meðlimur Gagnamagnsins greindist COvid-19 smitaður í morgun. Ljóst þykir að sveitin fær ekki að stíga á svið, hvorki í kvöld á dómararennslinu né annað kvöld á undanúrslitakvöldinu.
Einhver meðlimur Gagnamagnsins er smitaður af Covid-19. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV eftir að hópurinn fór í skimun snemma í morgun.
Fyrir hafði einn úr sendinefndinni greinst með Covid og því hefur allur hópurinn verið í sóttkví. Fyrirhugað var að Daði Freyr og Gagnamagnið myndi æfa í dag og taka síðan þátt í hinu mikilvæga dómararennsli í kvöld.
Sveitin átti svo að stíga á svið annað kvöld á síðara undanúrslitakvöldinu en nú er óljóst hvort af því verði þar sem tveir úr hópnum eru smitaðir af kórónaveirunni.
Allur Eurovision hópurinn íslenski var bólusettur með Jansen-bóluefninu fyrir förina til Hollands.
Rétt í þessu var Daði Freyr að tvíta um niðurstöðuna og segir þar afar ólíklegt að sveitin fái að stíga á svið. Þess í stað verður spiluð upptaka af annarri æfingu Gagnamagnsins í Rotterdam.
„Við höfum farið alveg ótrúlega varlega og því eru þetta hrikaleg vonbrigði. Við erum hins vegar ánægð með frammistöðuna og svakalega spennt yfir því að þið fáið að sjá. Takk öllsömul fyrir alla ástina,“ segir Daði Freyr.
A member of Gagnamagnið got a positive test result this morning. Unfortunately this probably means that we will not take part in the rehearsal today or live show tomorrow and a recording from our second rehearsal will be used in stead. pic.twitter.com/93yravOHSY
— Daði Freyr 🥑 (@dadimakesmusic) May 19, 2021