Uppgjör Reykjavíkurborgar við Dag B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóra er nú talið kosta fast að 20 milljónum króna. Dagur hafpði stólaskipti við Einar Þorsteinsson og lauk þar með ferli sínum sem borgarstjóri og varð formaður borgarráðs.
Dagur fékk 9,6 milljónir króna í biðlaun. Þá greiðir borgin Degi 9,7 milljónir króna í orlofsuppgjör vegna undanfarinna tíu ára.
Þetta kemur fram í svari borgarritara vegna fyrirspurnar Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um kostnað vegna orlofsuppgjörs við fyrrverandi borgarstjóra. Samkvæmt svarinu átti Dagur samkvæmt ákvæðum kjarasamninga rétt á 240 stunda orlofi á ári, þau tíu ár sem hann gegndi starfi borgarstjóra. Samkvæmt svarinu hafði Dagur ekki tök á því að taka reglubundið orlof eins og launþegum er ætlað að gera. Orlofið hafi þannig verið flutt á milli orlofsára og safnast upp í áranna rás.
Borgarritari segir að þessi framkvæmd hafi verið viðhöfð eins gagnvart öllu starfsfólki Reykjavíkurborgar sem ekki hafi tök á að taka sér orlof og nýta þannig áunnar orlofsstundir. Vísað er til kjarasamnings Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar sem gerður var í borgarstjóratíð Dags árið 2020. Nýtt ákvæði kom þá inn þar sem skerpt var á heimildum til frestunar og þá einnig fyrningu orlofs. Athygli vekur að ákvæðið kom inn fyrir fjórum árum en afturvirknio orlfsmálsins nær til 10 ára.
Hildur segir við Morgunblaðið að í svari borgarritara komi fram að þetta sé í samræmi við orlofsuppgjör æðstu embættismanna borgarinnar og það kalli á sérstaka skoðun líka.
„Okkur finnst ekki eðlilegt að gera upp tíu ára uppsafnað orlof við fyrrverandi borgarstjóra miðað við þær fyrningarreglur sem gilda um orlofsuppgjör.“