Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.1 C
Reykjavik

Dagur eða Kristrún einu sem koma til greina í formanninn: „Síðasta tækifærið til alvöru sóknar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Allt virðist stefna í að það verði Kristrún Frostadóttir þingkona og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem munu keppast um að taka við af Loga Einarssyni, fráfarandi formanni Samfylkingarinnar. Logi greindi frá því í dag að hann hyggðist segja þetta gott og hætta formennsku í haust. Staða þeirra beggja er sterk innan flokksins og því mjög tvísýnt hver hefði betur ef þau myndu bæði sækast eftir stólnum. Líklegast er að Dagur muni ekki sækjast eftir formennsku ef Kristrún gerir það einnig. Stóra spurningin sé því hvort hún taki slaginn.

Björn Birgisson, þjóðfélagsrýnir í Grindavík, segir á Facebook að valið á milli þeirra tveggja verði líklega mjög afdrifamikið. „Mun Samfylkingin láta að sér kveða eins og að var stefnt með sameiningunni um aldamótin? Með vali nýs formanns Samfylkingarinnar í haust gefst flokknum síðasta tækifærið til alvöru sóknar í stjórnmálum landsins,“ skrifar Björn og bendir á að þau spegli hvort annað. Þá á hann við að Kristrún sé ferskur andblær en á móti hafi hún litla reynslu. Þessu er þveröfugt farið hjá Degi, næg er reynslan en ferskleikinn ekki mikill.

Blaðamaður spurði Björn því hvað fleira aðgreindi þau, um hvað valið snerist fyrir flokksmenn. Það stóð ekki á svörunum.  Björn segir þau bæði hafa mikla styrki en líka nokkra veikleika. Hann segist örlítið efins um að þau munu berjast um formennskuna.

„Fari svo að Dagur og Kristrún berjist um formennskuna í Samfylkingunni – sem er álíka líklegt og það er ólíklegt – þá tel ég líklegra að Kristrún hafi sigur. Nýjabrumið heillar oft meira,“ segir Björn.

Björn segir styrkleika Dags felast í því að hann sé  „mjög vinsæll maður sem hefur haldið Samfylkingunni í Reykjavík í um 25- 30% á sama tíma og flokkurinn berst við 10% þröskuldinn á landsvísu. Alþýðlegur og elskulegur maður. Aðrir oddvitar flokksins komast ekki með tærnar í námunda við svæðið þar sem Dagur hefur hælana. Ef reynsla er styrkleiki þá býr Dagur vel að henni – hefur lagt 16 farsæl ár að baki í borgarstjórn og hefur sýnt að hann hefur gott pólitískt nef. Hann veðjaði til dæmis hárrétt á samstarfið við Besta flokkinn og Jón Gnarr og naut þess að stjórna borginni með lagni úr aftursætinu!“

Dagur hafi þó veikleika, þó misalvarlegir séu. „Hann er karlmaður á tíma þar sem konur eru að leggja allt undir sig! Hafandi fylgst með störfum Dags úr fjarlægð þessi 16 ár sem hann hefur setið í borgarstjórninni hefur mér ekki tekist að greina neina áberandi veikleika – þvert á móti. Hins vegar kann það að reynast honum fjötur um fót að hafa ungur gefið sig að borgarmálunum og verið lengi í sviðsljósinu. Úthald kjósenda gagnvart frambjóðendum er miklu minna en frambjóðendanna sjálfra. Það er miklu líklegra að kjósendur séu eins og fólk í framhjáhaldi – á sama tíma og frambjóðendur halda tryggð við flokkinn sinn – komi upp einhver þreyta í sambandinu!“

- Auglýsing -

Líkt og áður þá er þessu öfugt farið hjá Krisrúnu. Björn segir um styrkleika hennar: „Kristrún – Styrkleiki. Hún er kona, metnaðarfull og hæfileikarík kona. Sá tími er liðinn að þær eigi erfitt uppdráttar í pólitík, séu þær með metnaðar áttavitann rétt stilltan. Hún er vel menntaður hagfræðingur og talar um fjármál ríkisins og fjármál almennt eins og hún hafi alist upp í þeim. Þar er hún á heimavelli og ber af öðrum þingmönnum, sem margir hverjir hafa lítið sem ekkert vit á fjármálum, utan þess að vita hver laun þeirra eru. Þekking hennar á fjármálum er vís til að tengja hana og flokkinn betur við atvinnulífið í landinu, en þar á Samfylkingin nánast engar tengingar nú, en verður að ná þeim ef hún vill vaxa úr smáflokki í ráðandi afl. Hérlendis ná engir flokkar almennilegri fótfestu ef þeir eru stöðugt að tala atvinnulífið niður. Kristrún Frostadóttir skilur þá staðreynd mætavel.“

Hann segir veikleika hennar vera að fyrst og fremst reynsluleysi enda stjórnmálaferill hennar stuttur. „Hún er svo ný og fersk í stjórnmálunum að hún hefur ekki náð að sýna neinar veikar hliðar. Virðist vera ákveðin og rökviss. Margir líta á reynsluleysi sem veikleikamerki, en reynslan hefur þó sýnt að fjölmörgum stjórnmálamönnum hefur hreinlega verið hent út í djúpu laugina – og ekkert staðið sig verr en reynsluboltarnir við það að klóra sig að bakkanum!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -