„Ég er 44 ára og nýkominn út úr skápnum sem transmaður; það eru tveir til þrír mánuðir síðan,“ segir Dagur Þór Aspar sem er búinn að láta breyta nafni sínu. Áður hét hann Fanney Ösp Stefánsdóttir. Hann segir að það sé erfitt að bíða eftir að fá karlhormóna og fara síðan í aðgerðir. Hann vill að þetta verði gert sem fyrst.
Dagur segir að þegar hann var lítill hafi hann oft verið að leika sér með gröfur í sandkassanum og fimm til sex ára hafi hann oft leikið sér að bílum með besta vini sínum. Hann var líka mikið í fótbolta og körfubolta og hann hjólaði mikið. „Ég fann mig aldrei í þessum týpísku stelpuleikjum. Ég held ég hafi átt eina Barbie-dúkku.“
Hann segist hafa verið strákastelpa og að hann hafi oft talað um það þegar hann var lítil stelpa að hann vildi vera strákur. „Ég held að fólk hafi ekkert gert sér grein fyrir þessu. Það var engin umræða um trans á þessum tíma og það var enginn sem spáði í hvort þetta gæti verið málið.“
Árin liðu og segir Dagur að sem unglingur hafi hann mikið verið í gallabuxum og vinnuskyrtum.
Allt sem er kvenlegt hefur valdið mér vanlíðan í undirmeðvitundinni.
„Ég held að ég hafi alltaf verið með skerta sjálfsmynd. Allt sem er kvenlegt hefur valdið mér vanlíðan í undirmeðvitundinni og mér hefur alltaf fundist vera erfitt að klæða mig kvenlega. Ég hef alltaf viljað vera meira í kringum stráka og ég tengdi betur við þá þegar ég var yngri.“ Jú, Degi leið ekki vel í kvenlegum fötum og hann hætti fyrir nokkrum árum að ganga í kjólum og að mála sig. „Ég hafði reynt að vera kvenlegur en ég fann mig aldrei í því. Þetta var alltaf erfitt.“
Dagur segist hafa glímt við geðræn vandamál í áratugi. „Ég hef verið að glíma við þunglyndi og kvíðaraskanir frá því ég var unglingur og hef verið hjá geðlækni. Og ég hef verið á lyfjum við þunglyndi og kvíða frá því ég var tvítugur. En það var í raun og veru kannski enginn sem náði að setja puttann á hvað væri að,“ segir Dagur og játar að mögulega hafi það haft áhrif að hann er trans þótt hann hafi ekki gert sér grein fyrir því í áratugi enda lítil sem engin umræða um þau mál á þeim tíma. „Undirmeðvitundin var að segja að það væri eitthvað rangt. Ég hef oft fengið að heyra að ég sé lesbía af því að ég er svo macho en ég fór að grínast með það fyrir mörgum árum að ég væri hommi. Það var kannski byrjunin á því að ég fattaði þetta,“ segir Dagur sem hefur alla tíð heillast af karlmönnum.
Út úr skápnum
„Ég skreið svolítið út úr skelinni þegar ég fór að æfa íshokkí þegar ég var 36 ára og ég upplifði það svolítið kynlaust. Ég varð markmaður í íshokkí og fór að tengja við það. Ég var markmaður; ekki kona,“ segir Dagur sem er leikmaður, liðsstjóri og barnaþjálfari hjá Skautafélagi Reykjavíkur.
Svo tók Dagur skrefið núna í haust og kom út úr skápnum sem trans. Hvað varð til þess að hann gerði það núna?
„Ég bara gat ekki feikað lengur. Mér leið illa. Ég er af þeirri kynslóð að maður vissi ekkert um þetta. Mér hefur aldrei liðið nógu vel en þetta hefur verið í undirmeðvitundinni. Ég var búinn að hugsa um í nokkur ár hvort ég væri trans. Mamma dó í júlí og ég spurði systur mínar hvort þeim væri sama ef ég myndi kaupa mér jakkaföt og mæta í útförina í jakkafötum. Þá var ég ekki beint að koma út úr skápnum en ég vissi að það væri að fara að gerast. Ég mætti í jarðarförina í jakkafötum og sagði sumum frá þessu. Mér leið ótrúlega vel á þessum erfiða tíma sem var mjög skrýtin tilfinning. Þetta ýtti mér af stað.“
Það helltist yfir mig rosaleg vellíðan þegar ég steig út úr skápnum.
Dagur segir að hann hafi þó áður velt því fyrir sér hvort þetta hreinlega tæki sig þar sem hann væri orðinn fertugur. „Ég vissi að þetta yrði erfitt en svo hugsaði ég með mér að ég myndi ekki vera að missa neitt af því að ég fann fyrir þessari vanlíðan og ég gerði mér grein fyrir að ég myndi bara græða á þessu. Og það helltist yfir mig rosaleg vellíðan þegar ég steig út úr skápnum.“
Dagur segir að fólk hafi almennt tekið því vel þegar það vissi að hann væri trans. „Ég hef ekki mætt neinum fordómum. Sumir þurfa og vilja ræða við mig um þetta og spyrja og ég er svolítið að fræða fólk í kringum mig. Það kom mér á óvart hvað fólk var jákvætt og sumir óskuðu mér til hamingju.“
Það var engin kona
Dagur fór í haust í viðtal hjá starfsmanni Samtakanna 78. „Ég var að vandræðast með að ég væri núna Dagur en hefði áður verið Fanney og þá var mér bent á að ég hefði alltaf verið Dagur. Og þá sagði ég að fyrstu 44 árin hefðu bara verið misskilningur. Og þá fór ég virkilega að tengja við þetta. Ég hef alltaf verið ég. Ég er ekkert að breytast. Og þegar ég fór að tala um mig í karlkyni í fortíðinni þá passaði þetta.“
Dagur segist í gegnum árin oft hafa klætt sig almennt í íþróttaföt en nú sé hann orðinn fatasjúkur. „Ég elska að versla. Ég elska að fara í herrafataverslanir og það er tekið mjög vel á móti mér. Ég get ekki keypt föt af slánni heldur þarf að breyta fötum sem ég kaupi á mig. Ég elska að vera í jakkafötum og er þá í skyrtum og með bindi. Mér líður þá rosalega vel.“
Ég er núna miklu sjálfsöruggari.
Dagur sér ekki eftir Fanneyju. „Það var engin kona. Mér líður mjög illa með líkamann og það versnaði bara eftir að ég kom út úr skápnum af því að þetta passar ekki. Fanney var karlmannleg og passaði ekki inn í boxið. Þetta var bara einn stór misskilningur. Ég er núna miklu sjálfsöruggari, sterkari og mér líður betur sem ég.“
Biðin erfið
Dagur segist vera hjá transteyminu og að það sé erfitt að bíða eftir að kynleiðréttingarferlið hefjist. „Ég er búinn að breyta um nafn í Þjóðskrá, ég er kominn með nýtt ökuskírteini og nýtt vegabréf en ég fæ í raun og veru ekki að halda áfram í ferlinu. Ég er tvisvar búinn að hitta sálfræðing hjá transteyminu sem sagði að ég væri greinilega tilbúinn en reglurnar hjá teyminu eru þannig að ég fæ ekki viðtal hjá geðlækni fyrr en í janúar og svo í mars. Þetta eru einhverjar verklagsreglur sem farið er eftir. Það sem mér finnst vera erfiðast núna er að fólk sem þekkir mig ekki upplifir mig sem konu og talar við mig eins og ég sé kona. Mér finnst það vera erfitt en röddin í mér er of kvenleg og útlitið er of kvenlegt. Jafnvel þótt ég kynni mig sem Dag þá fer fólk að ávarpa mig í kvenkyni. Það er erfitt að reyna að lifa í samfélagi sem karlmaður en fólk sér mig ekki sem karlmann. Ég upplifi mig alveg sem karlmann og ég reyri alltaf brjóstin til að þau virki minni en því miður er ég rosalega brjóstastór.“
Hann segist þegar vera farinn að setja á sig rakspíra.
Dagur segist hlakka til að fá skegg eftir að hann fer að taka karlhormóna, og hann segist þegar vera farinn að setja á sig rakspíra, og hann segist vilja fara alla leið þegar kemur að aðgerðunum. „Ég er núna ótrúlega stoltur af hárunum á fótleggjunum á mér. Ég þarf ekki lengur að raka leggina.“
Dagur er lífeindafræðingur að mennt, tók bæði grunnnám og svo meistaranám erlendis, en hann breytti fleiru á þessu ári. Hann sagði upp í vinnunni og stundar núna nám í tölvunarfræði.
Hvað með framtíðardrauma? „Mig langar bara að verða einn af strákunum; að vera ávarpaður sem karl og vera tekinn eins og mér líður. Ég hef verið að spila íshokkí með strákaliðum og hef verið í búningsklefa með strákum en ég hef aldrei almennilega upplifað að vera einn af þeim. En það er það sem mig dreymir um.“ Dagur vill sérstaklega taka fram hve fólk í íshokkííþróttinni hér á landi hefur tekið honum vel eftir að hann kom út úr skápnum. „Móttökurnar sem ég hef fengið þar hafa farið fram úr mínum björtustu vonum.“
Hann segir að hann sé á byrjunarreit og núna langi sig til að læra í raun og veru að lifa lífinu. „Ég vil lifa lífinu sem ég sjálfur. Núna læri ég að hlusta á hvað ég vil og hvernig mér líður. Ég hef í rauninni lifað lífinu hingað til eins og leikari og ég er ótrúlega spenntur fyrir framtíðinni.“
Hvað með nýja nafnið, Dagur? „Ég var búinn að velta þessu nafni fyrir mér í mörg ár. Þetta er eins og nýr dagur.“
Byrjun.
Upphaf.