Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir gærdaginn hafa verið „nokkuð stærri“ en vanalega hvað varðar sölu í Vínbúðunum.
„Sala áfengis í gær var 45.938 lítrar,” segir Sigrún í samtali við Mannlíf þegar hún er spurð út í hvort fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir BSRB hafi haft einhver áhrif á söluna. Hún bætir við að á þriðjudögum það sem af er ári hafi að meðaltali selst 31.703 lítrar af áfengi.
„Þannig að dagurinn í gær var nokkuð stærri en búast má við á hefðbundnum þriðjudegi.”
Stór hluti starfsmanna ÁTVR eru í BSRB en félagsmenn aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríki, Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum stefna á að hefja verkfallsaðgerðir mánudaginn 9. mars. Því gæti komið til lokunar Vínbúðanna mánudaginn 9. mars og þriðjudaginn 10. mars.
Einnig hafa verið boðaðar lokanir þriðjudaginn 17. mars og miðvikudaginn 18. mars, ef ekki hefur náðst að semja fyrir þann tíma. Sömuleiðis dagana 24. og 26 mars, 31. mars, 1. apríl og 15.-25. apríl.