Það berast gleðifregnir frá Grindavík; hin frábæra körfuboltakona, Danielle Rodriquez – kölluð Dani – hefur ákveðið að vera um kyrrt í Grindavík, en liðið stóð sig með miklum sóma í vetur; ungt og efnilegt lið á réttri leið.
Grindavík sendi frá sér fréttatilkynningu af þessu góða tilefni:
„Körfuknattleiksdeild Grindavíkur tilkynnir með stolti að Danielle Rodriguez hefur gert nýjan samning við félagið og mun leika með Grindavík á komandi keppnistímabili í Subwaydeild kvenna 2023/2024.
Danielle mun jafnframt halda áfram í þjálfun hjá yngri flokkum félagsins þar sem hún hefur staðið sig frábærlega.
Danielle verður þrítug í lok árs og var með 20 stig að meðaltali í leik á síðasta tímabili ásamt því að gefa 6,6 stoðsendingar og taka 7,1 frákast í leik. Hún var með framlag upp á 25,2 í leik á nýafstöðu tímabili.
„Danielle hefur komið frábærlega inn í körfuboltasamfélagið hér í Grindavík og það eru forréttindi að fá að starfa áfram með henni á næsta keppnistímbili. Dani er frábær leikmaður en ekki síst frábær manneskja. Hún hefur staðið sig frábærlega við þjálfun hjá félaginu og ég veit að það er mikil gleði í okkar körfuboltafjölskyldu að Danielle verði áfram í Grindavík,“ segir Ingibergur Þór Jónasson, formaður Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.