Danir hafa frá og með deginum í dag fellt niður allar takmarkanir í tengslum við Covid-19. Grímuskylda, samkomutakmarkanir og svokallaður kórónupassi heyra því söguna til, en grímuskylda hefur verið í gildi á flestum opinberum stöðum frá því í ágúst 2020.
Einnig hefur kórónupassinn verið notaður til að sýna fram á bólusetningar, fyrri smit eða neikvætt PCR próf. Hann þurfti að sýna þegar komið var á veitingastaði, sundstaði, menntastofnanir og á suma vinnustaði svo eitthvað sé nefnt. Engar takmarkanir eru lengur á opnun skemmtistaða og veitingastaða. Þá eru fjöldatakmarkanir á tónleikum, íþróttaviðburðum og í leikhúsum teknar úr gildi.
Covid-19 er því ekki lengur skilgreindur sem sjúkdómur sem ógnar samfélaginu í Danmörku.