Sölufélag garðyrkjumanna sendi á dögunum bretti með um 4.000 agúrkum til Danmerkur. Þær seldust upp. Önnur sending fór utan í vikunni og hefur meira verið pantað.
Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélagsins, segir gott verð fást fyrir agúrkurnar, ívið hærra en hér á landi.
Hann segir að sölufélagið hafi byrjað fyrir um einu og hálfu ári að skoða útflutning á grænmeti til Danmerkur. Um nýbreytni sé að ræða því íslenskt grænmeti hafi nær eingöngu verið flutt út til Færeyja og Grænlands.
„Við fengum fyrirspurn um það af hverju ekki væri hægt að kaupa íslenskt grænmeti í Danmörku. Við skoðuðum málið úti og ræddum við danska kaupmenn. Viðtökurnar voru býsna góðar. Sérstaklega þóttu íslensku gúrkurnar góðar þar sem þær eru hreinni og af betri gæðum en þær dönsku,“ segir hann og bendir á að gerðar hafi verið prófanir á þeim áður en til útflutnings kom.
„Það er mikill áhugi á íslensku grænmeti því það er svo hreint.“
Íslenskar agúrkur eru stærri en Danir eiga að venjast, alla jafna um 350 grömm en þær dönsku hundrað grömmum léttari og því þurfti að rækta afbrigði. „Það kemur annar keimur í bragðið á þeim litlu,“ segir Gunlaugur. „En þær eru mjög bragðgóðar.“
Agúrkurnar eru seldar í dönsku netversluninni nemlig.com, en Gunnlaugur segir í kortunum að fleiri danskar verslanir selji íslenskar agúrkur og grænmeti. Þar á meðal Irma. „Það er mikill áhugi á íslensku grænmeti því það er svo hreint. Danirnir vildu tómata en við áttum ekki nóg til að senda út. En svo má selja þarna fisk og kjöt,“ segir hann. „Þarna eru tækifæri.“