Þrír fórust þegar lítil flugvél agf gerðinni Cessna fórst á hálendi Austurlands, við Sauðahnúka, milli Hornbrynju og Hraungarða.
Slysið varð um klukkan 17 í gær þegar vélin var á leið til Egilsstaða úr könnunarflugi. Óttast var um vélina þegar boð bárust frá neyðarsendi hennar. Farþegavél Icelandair sem var á leið til Egilsstaða kom auga á flak vélarinnar og ferðaþjónustuþyrla staðfesti svo að um væri að ræða flak Cessnunnar.
Lögreglan á Austurlandi sendi út tilkynningu um slysið og fer með rannsókn málsins ásamt rannsóknanefnd samgönguslysa. Rannsókn málsins sé á frumstigi og að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
„Klukkan 17.01 í dag bárust stjórnstöð Landhelgisgæslunnar boð úr neyðarsendi lítillar flugvélar af gerðinni Cessna. Þegar var haft samband við flugstjórnarmiðstöðina sem staðfesti að vélin hefði verið á flugi yfir Austurlandi og að um borð væru auk flugmanns tveir farþegar,“ segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni
„Um sjöleytið í kvöld fannst vélin brotlent við Sauðahnúka. Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á vettvangi en flugmaður og farþegar Cessna vélarinnar voru látnir þegar að var komið,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Slysstaðurinn er um 50 kílómetra frá Egilsstöðum.