Margir verða eflaust glaðir nú því nýir rekstraraðilar hafa tekið við rekstri Litlu kaffistofunnar á Suðurlandsvegi. Í sumar bárust þær fréttir að Litla kaffistofan væri öll; hefur staðurinn verið tómur og harðlæstur síðan fjórtánda júlí, en þá lokuðu hjónin Katrín Hjaltadóttir og Svanur Gunnarsson staðnum eftir að hafa rekið hann um fimm ára skeið.
Ekki var talið líklegt að Litla kaffistofan myndi rísa upp frá dauðum, enda hefur Covid-faraldurinn gert öllum veitingarekstri hér á landi sem annars staðar lífið erfitt.
En nú er ljóst að Litla kaffistofan er ekki öll. Nýir rekstraraðilar hafa tekið við og
fengu þeir húsnæðið afhent á þriðjudaginn og segja kunnugir að þeir hafi verið fljótir til framkvæmda; hófust strax handa af miklum krafti við að breyta og bæta staðinn að innan.
Ekki er vitað hvaða aðilar hafa tekið við rekstrinum, en samkvæmt heimildum Mannlífs er hér á ferð reyndur hópur veitingamanna.
Búist er við því að Litla kaffistofan verði opnuð í næsta mánuði og mun það án efa gleðja marga enda staðurinn landsþekktur og vinsæll áfangastaður. Og hefur lengi átt afar dygga fastakúnna sem gleðjast væntanlega mjög.