Tveir aðstandenda mannanna sem fundust látnir í bifreið í Daníelsslipp við Mýrargötu í Reykjavík, þann 1. mars 1985, hafa lagt inn gögn til ríkislögreglustjóra sem varða endurupptöku á máli mannanna tveggja.
Hinir látnu voru Sturla S. Steinsson og Einar Þór Agnarsson en Ragnar Kristján Agnarsson, bróðir Einars, og Kristinn Sturluson, sonur Sturlu, lögðu gögnin fram.
Hildur María Sævarsdóttir fjallaði um málið í þætti sínum hér á Mannlífi þann 29. Júlí síðastliðinn en hún fylgdi Ragnari og Kristni er þeir afhentu gögnin. Þáttinn má sjá í spilaranum hér að neðan.
Innanríkisráðuneytið hafði áður synjað upptöku málsins með úrskurði árið 2011 en meðal gagnanna sem Ragnar og Kristinn skiluðu inn var skjal dagsett sama ár frá umboðsmanni Alþingis til Ögmundar Jónassonar, þáverandi innanríkisráðherra, þess efnis að þó að störf ríkislögreglustjóra og starfsmanna hans teljist ekki til refsiverðrar háttsemi kunni þau að gefa tilefni til aðfinnslna eða áminninga af hálfu yfirboðara þeirra. Jafnframt að þó kæruefni falli ekki undir kæruheimild hafi innanríkisráðuneytið þá heimild að fjalla um efni kærunnar á grundvelli hins almenna eftirlitshlutverks þess með ríkislögreglustjóra.