Vel gengur að koma saman stjórnarsáttmála þeirra Kristrúnar Frostadóttur, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Ingu Sæland og það virðist einungis vera tímaspursmál hvenær starfsstjórn Bjarna Benediktssonar verður send út í buskann.
Morgunblað Davíðs Oddssonar er með böggum hildar yfir þeim ósköpum öllum að Sjálfstæðisflokkurinn er að missa völd á flestum vígstöðvum. Uppsláttarfrétt blaðsins í dag er að hvalveiðimálin hafi ekki verið rædd hjá Valkyrjunum. Einhver kann að spyrja hvers vegna í ósköpunum þær ættu að ræða þau mál í forgangi. Það hlýtur að vera verkefni Alþingis alls að móta stefnu um veiðarnar og taka þar allar stórar ákvarðanir ef til kemur.
Eins og sakir standa eru efnahagsmálin í krísu eftir fráfarandi stjórn og mikilvægt að stýra þeim í réttan farveg og sópa upp eftir ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Þá er sniðugt að ræða og rétta kjör þeirra sem standa höllustum fæti í stað þess að tuða um hvalveiðar …