Ljóst er að forsvarsmenn Íslandshótela ætla ekki að hleypa verkfallsvörðum Eflingar á hótel sín; segja ástæðuna fyrir því vera hótanir þeirra í garð starfsmanna annarra stéttarfélaga sem eru ekki í verkföllum.
Kemur þetta fram í tilkynningu frá hótelinu; þar segir að ákvörðunin hafi verið tekin eftir hádegi í dag:
„Verkfallsverðir Eflingar, sem mættu á hótel Íslandshótela eftir hádegi í dag, hófu svo að hóta starfsmönnum annarra stéttarfélaga sem voru við störf, sem og yfirmönnum sem löglega voru að sinna sinni vinnu, aðgerðum ef þeir leggðu ekki niður störf.
Rétt er að ítreka og undistrika að starfsmenn annarra stéttarfélaga eru sannarlega ekki í verkfalli og voru með engu móti að ganga í störf Eflingarfólks.
Efling hefur með þessu farið langt yfir eðlileg mörk og í ljósi aðgerðanna hafa forsvarsmenn Íslandshótela nú ákveðið að taka fyrir frekari heimsóknir fulltrúa Eflingar,“ segir í áðurnefndri tilkynningu.
Kemur einnig fram að þessi ákvörðun muni verði endurskoðuð ef breyting verði á afstöðu Eflingar um það sem forsvarsmenn Íslandshótela segja vera „eðlilega og sanngjarna verkfallsvörslu af þeirra hálfu.“
Íslandshótel voru búin að samþykkja að leyfa tveimur aðilum frá Eflingu að sinna verkfallsvörslu á hótelinu.
Trúnaðarmaður Eflingar, Örvar Þór Guðmundsson, tjáði sig við vefinn mbl.is að verkfallsbrot hafi átt sér stað; þrjár lögreglubifreiðar komu á vettvang og voru dyr hótelsins opnaðar með lögregluvaldi við mikil fagnaðarlæti Eflingarfólks.