Fimmtudagur 16. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Diljá missti systur sína unga úr fíkniefnaneyslu: „Sársaukinn hverfur aldrei“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta dofnar og minnkar með árunum en sársaukinn hverfur aldrei. Ég var rosalega reið á tímabili en ég er búin að vera mikið í Al-Anon samtökunum og hef unnið af krafti úr mínum málum,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir, sem vann stórsigur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um helgina.

Dilja hefur upplifað mikla hamingju en einnig stórar sorgir í lífinu. 

Hún hleypur niður að taka á móti blaðamanni í utanríkisráðuneytinu, brosmild og hress þrátt fyrir prófkjörskeyrsluna. „Kanntu á kaffivélina? Ég er ekkert í kaffinu, þú verður að redda þessu.”

Vorum óaðskiljanlegar

Diljá er ein fjögurra systkina, fædd árið 1987, og uppalin í Grafarvoginum, önnur stelpan í röð fjögurra systkina á sex árum. Stutt var á milli Diljár og eldri systur hennar Susie Rutar, aðeins var eitt ár á milli þeirra í skóla og fylgdust þær náið að í gegnum lífið. „Við deildum lengi vel saman öllu þótt við værum að mörgu leyti gjörólíkar. Margir vildu ekki einu sinni trúa því að við værum systur, við vorum ekki einu sinni líkar í útliti!“ 

„En við deildum herbergi og vinahóp, vorum óaðskiljanlegar. Þegar við urðum aðeins eldri fluttum við síðan saman í íbúð í kjallara foreldra okkar.”

- Auglýsing -

Sá hana aldrei framar

Diljá segir Susie Rut hafa verið gríðarlega greinda en öra á mörgum sviðum. „Svo fór að Susie Rut leiddist út í fíknefnaneyslu undir lok grunnskóla, hún fór að gera aðra hluti og leiðir okkar skildu tímabundið. Susie Rut fór alltaf alla leið og náði botninum mjög hratt. Hún náði samt að snúa við blaðinu og náði tökum á eigin lífi. Eftir meðferð og dvöl á áfangaheimili var hún dugleg við að sækja fundi og var á fullu við að hjálpa öðrum. En svo fór að hún féll mjög harkalega þremur árum síðar.”

Diljá segir fíknisjúkdóm Susie Rutar hafa verið óvenjulegan að því leyti hversu hratt allt bar að. „Hún var bara í neyslu í tvö ár og fór einungis tvisvar í meðferð og þegar hún féll gerðist það skyndilega. Hún var á sjúkrahúsi út af öðru og okkur fór að gruna að hún væri fallin. Ég var henni sár og reið þegar ég heimsótti hana á sjúkrahúsið, ekki þess vitandi að ég myndi aldrei sjá hana framar. Þetta var árið 2007.”

- Auglýsing -

Vorum ofboðslega meðvirk

Diljá segist að fráfall systur sinnar hafi mótað hana mikið sem einstakling.

„Þegar Susie Rut byrjaði í neyslu var þetta ekki mikið rætt, jafnvel þótt að heimilið hafi verið undirlagt af fíknisjúkdómi hennar. Við vorum ofboðslega meðvirk. En sem betur fer hefur orðið mikil viðhorfsbreyting og við fórum að tala um þetta opinskátt. Það velur enginn að vera fíkill og fíknin spyr hvorki um stétt né stöðu. Við fengum oft að heyra það sama: Er Susie Rut í neyslu? En hún kemur af góðu heimili, og enginn í fjölskyldunni í neinni vitleysu?“ 

„En þannig er þetta ekki í hinum raunverulega heimi.”

„Svo rosalega gott“

Fjölskylda Susie Rutar stofnaði minningarsjóð um hana eftir lát hennar og fór í auglýsingaherferð til að vekja athygli á vandanum. „Mér er alltaf minnistæð auglýsingin um handboltastrák sem lést úr of stórum skammti. Mamma hans spurði hann í örvæntingu sinni fyrir lát hans af hverju hann hann væri eiginlega í þessu og svar hans var: „Mamma, það er af því mér finnst þetta svo rosalega gott.”

Límd við kosningavökuna átta ára

Diljá segir fjölskylduna hafa verið sitt helsta mótunarafl í lífinu. „Foreldrar mínir eru sterkir karakterar og við höfum alltaf verið öll mjög náin. Ég var svo passasöm á litlu bræður mína að þeir kalla mig í gamni hina mömmu sína. Þeir segja mig reyndar hafa fæðst þrítuga en ætli þeir breyti því ekki í fimmtugt eftir því sem maður eldist,” segir Diljá og hlær. 

Diljá Mist, ásamt Róberti og gullmolunum þeirra.

Hún ólst upp á sjálfstæðisheimili og kveðst hafa verið rammpólitísk frá unga aldri. „Ég var að finna dagbókina frá því ég var 8 ára og lýsi þar kosningavöku heima hjá mér. Þar sem ég sat límd við sjónvarpið og fylgdist með niðurstöðunum. Bara kríli. Ég kynntist til dæmis manninum mínum í Versló og hann vissi hvað ég var pólitísk enda fór svo mikið fyrir mér. Eftir 16 ár saman er hann nýbúinn að játa fyrir mér að hafa farið á bókasafn fyrir fyrsta deitið til að kynna sér undirstöðuatriði í pólitík til að vera viðræðuhæfur!”

Aldrei að sjá eftir að hafa ekki látið vaða

Diljá hlær. „Annars atvikaðist þetta bara svona, ég hafði lengi verið í sjálfboðaliðastarfi innan flokksins auk þess að starfa sem lögmaður þegar Gulli bauð mér starf aðstoðarmanns og skipti ég þar með um gír. Ég var lengi vel fráhverf atvinnupólitík, elskaði að starfa í grasrótinni, og maðurinn minn grínaðist með að vera lítið spenntur fyrir að vera giftur stjórnmálamanni. En ég fann að hugurinn var farin að leita annað og í dag erum við hjónin bæði búin að skipta um skoðun. Ég ákvað bara að láta slag standa, maður á aldrei að sjá eftir því í lífinu að hafa ekki látið vaða.“

Hún er að sjálfsögðu sátt við niðurstöðuna og segir ekki verra að konur hafi komið vel út í prófkjörum. „Flokkar og framboð eru með alls kyns kynjakvóta og fléttulista en við kjósum að velja einstaklinginn. Í þetta skiptið komu konur vel út, kannski verður það öðruvísi næst en þetta er frábær blanda nýs blóðs og bullandi reynslu.”

Gift Chandler úr Friends

Diljá er gift Róberti Benedikt Róbertssyni, fjármálastjóra, og saman eiga þau tvö börn. „Maðurinn minn er Excelmaður heimilins, ég grínast oft með að hann sé eins og Chandler í Friends. Við erum fín blanda, fjölskylda full lögfræðinga, tölfræðinga, hagfræðinga og sálfræðinga en ekkert minna klikkuð fyrir það. Það er aldrei rólegt á okkar bæ, alltaf líf og fjör. Og svo er ég hissa á að eiga ekki börn sem sitja þæg og prúð og lita!”

Dilja og Róbert eiga tvö börn. Sjö ára dreng og fimm ára stúlku sem Diljá segir eins og dag og nótt. „Dóttir mín eins og ég og sonur minn eins og pabbi hans. Strákurinn minn er stríðinn og félagslyndur ærslapúki eins og pabbinn sem samt nýtur þess að hangsa heima á bumbunni og flýja til ömmu sinna þegar lætin í systur hans eru sem mest. Dóttir mín er aftur á móti í banastuði allan sólarhringinn, það er enginn off takki á því barni!“ 

„Sannkallaðir gleðigjafar sem hafa gefið mér mínar mestu gæfustundir,” segir Diljá Mist að lokum. 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -