Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Dísa safnar líkamsleifum dýra -Býr til skartgripi úr morknuðum refabeinum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Alveg frá því Dísa man eftir sér hafði hún áhugamál sem hún deildi ekki með mörgum öðrum börnum. Hún hafði mikinn áhuga á beinum og hauskúpum og byrjaði snemma að safna alls kyns líkamsleifum dýra, til að mynda beinagrindum fugla eða annarra dýra sem hún rakst á og voru látin. „Þetta var nú í óþökk foreldra minna” segir Dísa og hlær og minnist þess að safnið hafi verið látið hverfa þegar fjölskyldan flutti.

Hauskúpurnar heilla

,,Ég hef alltaf haft sérstakan áhuga á hauskúpum og komst að því með árunum að ég er engan vegin ein um þetta áhugamál. Þá kom upp sú  hugmynd að stofna Facebook síðu um þetta áhugamál okkar og síðar bættust við aðilar sem stoppa upp dýr, og þá helst veiðimenn. Í dag erum við ríflega 600 í grúppunni.”

Í lýsingu á hópnum segir: Hópur fyrir fólk sem vill versla með hauskúpur, bein og horn og ýmislegt því tengt. Nú eða bara sýna öðrum myndir af safninu sínu”.

Mörgum gæti þótt áhugamál Dísu sérkennilegt en hún hefur áhuga á nátturunni, og hvernig megi nýta líkamsleifar dýra til annars en átu. Má því segja að Dísa sé meiri dýravinur en margir.

- Auglýsing -

Engin norn,

Dísa kemur ekki fram undir fullu nafni því hún hefur orðið fyrir áreiti og vill fá að sinna sínum áhugamálum í friði.

- Auglýsing -

„Þrátt fyrir að sumum kunni að finna áhugamál mitt sérkennilegt er ég engin norn, heldur óttaleg mús. En ég hef alltaf haft gaman af að vinna í höndunum og hef haft áhuga á listmálun en skartgripagerðin hefur ávallt heillað mig. Áður notaði ég hefðbundnari efni á við perlur en nú einbeiti ég mér að skarti úr beinum.”

Möðkuð refabein

Í fyrra áskotnaðist Dísu full fata af veðruðum refabeinum.

„Það var heljar vinna en það er bara eitthvað sem fylgir þessu. Beinin voru skítug og möðkuð en ég hreinsaði þau og nýtti þau öll í skartgripi, eyrnalokka og annað slíkt. Fyrir mörgum árum var unnt að fara í gæludýraverslanir og fá afganga af snákafóðri, hauskúpur af músum og slíku en ég held að það sé ekki hægt í dag og leita ekki eftir því.”

„Það má búa til alls konar hluti úr beinum. Ég sker út í hauskúpur, sker þá út negatívuna og þá má setja ljós inn sem skýn í gegnum þynnri partinn. Ég hef skorið út galdrastafii og nýlega var ég beðin um að skera út keltneskan kross sem kom afar vel út. Ég hef einnig skipt við konu sem sér mér fyrir geitahausum gegn því að skera út verndarstafi”.

Aldrei aftur hrosshausa

Aðspurt að því hvort hún fái hauskúpurnar hreinsaðar eða hreinlega eins og þau komi af dýrinu segir hún að það sé hið síðarnefnda. ,,Þetta venst. Ég hreinsa stærsta hlutann og sýð síðan restina í stórum bruggpotti. Þá tekur við aðalvinnan við að hreinsa beinin vel og vandlega.”

Aðspurð að því hvort það séu hausar sem hún muni ekki koma nálægt segir hún svo vera og hlær innilega.

„Ég fékk tvo hrosshausa síðastliðinn mánudag og þeir eru búnir að valda mér gríðarlegri vinnu, ég snerti þá ekki aftur enda er búin að vera að farast í bakinu alla vikuna.”

Dísu finnst gaman að skreyta híbýli sín með listaverkunum úr beinunum og svo sé að segja um mun fleiri.

,,En því má aldrei gleyma að þetta voru lifandi og oft elskuð húsdýr fyrir andlátið og mér líður alltaf betur að vita nöfn dýranna sem ég er að vinna með. Með því er ég að sýna þeim þá virðingu sem þau eiga skilið, það er mun hlýlegra og ég læt fólk vita nöfnin þegar þau eignast ný heimili.”

Hér má sjá Facebook síðu hauskúpusafnara og hér má finna Facebook síðu Dísu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -