Disney-kóngurinn og ofurútvarpsmaðurinn Jón Axel Ólafsson og kona hans, María B. Johnson, hafa sett stórglæsilegan sumarbústað sinn við Skorradalsvatn á sölu. Óskað er eftir tilboði í bústaðinn glæsilega.
Jón Axel Ólafsson er framkvæmdarstjóri Eddu USA, sem gefur út og dreifir bókum frá Disney, Dreamworks, Nickelodeon, Mattel og Hasbro í Norður-Ameríku; hann á bakgrunn úr fjölmiðlum og hefur lengst af starfað sem dagskrárgerðarmaður í útvarpi, sjónvarpi og blöðum.
Í dag stýrir Jón Axel einum vinsælasta útvarpsþætti landsins, Ísland vaknar, á K100 ásamt Ásgeiri Páli og Kristínu Sif.
María hefur unnið í bókaheiminum, en hún er útgáfustjóri Eddu útgáfu sem gefur út rit um Andrés önd og fleiri stórmenni. Hjónin vinna því saman að útgáfunni.
Sumarbústaður hjónanna er 90 fermetrar að stærð og var byggður árið 1996. Síðan þá er búið að byggja hressilega við hann og er heildarfermetrafjöldinn 120, en einnig er þar 40 fermetra bátaskýli og í kringum bústaðinn er stór pallur með heitum potti. Úr bátaskýlinu er síðan auðvitað hægt að renna báti út á vatnið fallega.