Austfirska hljómsveitin SúEllen heldur tónleika í Bæjarbíói, Hafnarfirði annað kvöld, sína fyrstu tónleika á höfuðborgarsvæðinu í fimm ár.
Á tónleikunum munu meðlimir sveitarinnar leika sín þekktustu lög og segja sögur þeirra en að auki verður ýmislegt óvænt á dagskrá.
„Við félagarnir erum alltaf í góðu sambandi, hittumst annað slagið og æfum,“ segir Guðmundur Rafnkell Gíslason, söngvari hljómsveitarinnar.
„Svo spilum við opinberlega þegar við fáum spennandi fyrirspurnir. Höfum undanfarin ár meðal annars spilað á Bræðslunni, við opnun Norðfjarðarganga og síðasta haust á 50 ára afmæli Norðfirðingafélagins í Hörpu, reyndar bara nokkur lög. Þá fundum við fyrir miklum velvilja í okkar garð og eftirspurn eftir meiru. Því varð það úr að við ákváðum að spila í Bæjarbíói í Hafnarfirði.“
SúEllen var vinsælust á árunum 1987-1994 og smellirnir Símon, Elísa, Kona, Ferð án enda og Þessi nótt eru meðal laga sem náðu á vinsældalistana. Hljómsveitarmeðlimir hafa síðan oft komið saman og spilað við hátíðleg tækifæri. Árið 2003 sendi hún frá sér safnplötuna Ferð án enda og breiðskífan Fram til fortíðar kom út árið 2013.
Án gríns þá eigum við stóran aðdáendahóp sem reglulega potar í okkur og biður um tónleika.
„Við höfum ekki búið á sama landshorninu síðan 1987. Sennilega er það djúpstæð vinátta og sameiginleg reynsla sem bindur okkur órjúfanlegum böndum,“ svarar Guðmundur þegar hann er spurður hvað heldur félögunum saman.
„Svo án gríns þá eigum við stóran aðdáendahóp sem reglulega potar í okkur og biður um tónleika. Tónleikarnir í Bæjarbíói verða bara flugeldasýning, okkar allra þekktustu lög. Kannski teljum við í eitthvað nýtt en það verður þá væntanlega bara eitt eða tvö lög. Við erum oft að bauka í nýju efni þegar við hittumst og vonandi gefum við út ný lög á næstu árum,“ segir Guðmundur og búast má við hressilegum tónleikum frá þeim félögum.
Mynd / Gústaf Guðmundsson