Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Vesturlands yfir karli sem var í fyrra dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir blygðunarsemisbrot. Var maðurinn ákærður fyrir að senda í gegnum Facebook þrjár nektarmyndir af fyrrverandi kærustu hans á vinkonu hennar.
Viðurkenndi karlinn að hafa sent myndirnar, en vildi meina að það hefði verið „tilraun til að fá frið frá vinkonum hennar“, ekki til að særa blygðunarsemi fyrrverandi kærustu hans, eins og fram kemur í niðurstöðu Landsréttar.
Þegar dómur Héraðsdóms Vesturlands féll í maí í fyrra var karlinn dæmdur í áðurnefnt 60 daga skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða fyrrverandi kærustu sinni 250 þúsund krónur í bætur. Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms sem kveður á um að hann þurfi jafnframt að greiða allan áfrýjunarkostnað, samtals 915 þúsund krónur, í tengslum við málið.