Lögregla var kölluð út í miðbænum í gærkvöldi. Útkallið var heldur óvanalegt en þar hafði karlmaður berað sig fyrir framan fólk. Uppátækið féll að augljósum ástæðum í grýttan jarðveg gangandi vegfarenda og handtók lögregla manninn sem grunaður er um blygðunarsemisbrot.
Starfsmaður veitingastaðar slasaðist í nótt við það að pússa glas. Hafði glasið brotnað og fékk starfsmaðurinn glerbrot í augað. Þá kom annað vinnuslys inn á borð lögreglu en þar hafði maður dottið aftur fyrir sig í skurði og rotast. Báðir voru fluttir með sjúkrabifreið á bráðadeild til aðhlynningar.
Síðar um kvöldið reyndi lögregla að hafa afskipti af manni sem hafði látið illa. Þegar hann var beðinn um að fara eftir fyrirmælum lögreglu tók hann upp hníf og ógnaði lögreglu. Maðurinn var handtekinn og gisti á Hverfisgötunni.