Dóttir bandarískrar hafnaboltastjörnu situr undir kæru eftir að hún skildi nýfætt barn sitt eitt eftir úti í skógi í frosti.
Alexandra Eckersley var heimilislaus þegar hún fæddi son sinn í skógi í New Hampshire á jóladag. Úti var frost en mikill kuldi hefur verið á þessum slóðum undanfarið. Hún bjó í einskonar tjaldi í skóginum.
Hin 26 ára Alexandra er ættleidd dóttir hafnaboltaleikarans Dennis Eckersley en hann náði miklum árangri í íþróttinni og spilaði lengst af með Boston Red Sox. Alexandra hefur glímt við andleg veikindi og urðu þau til þess að hún byrjaði að misnota fíkniefni, missti samband við fjölskyldu sína og varð heimilislaus.
„Hún var greind með geðsjúkdóma tveggja ára, sem versnuðu í gegnum árin. Hún var oft lögð inn á sjúkrahús og að lokum var hún lokuð inn á stofnun,“ sagði í yfirlýsingu frá foreldrum Alexöndru.
Móðir hennar segir fjölskylduna hafi reynt að hjálpa henni í gegnum árin og koma henni í meðferð en hún neitaði þar til foreldrar hennar neyddust til að koma henni út af heimilinu.
„Hún var alltaf velkomin heim aftur, með þeim skilyrðum að hún færi í meðferð, hún kaus að gera það ekki,“ sagði lögfræðingur sem kom að málinu.
Á jóladag fæddi hún sitt fyrsta barn. Hún viðurkenndi fyrir lögreglunni að hafa notað kannabis og kókaín á meðgöngunni en segist ekki hafa vitað að hún gengi með barn.
Eftir fæðinguna hafði Alexandra samband við lögregluna og óskaði eftir aðstoð. Þegar hún var síðan spurð út í barnið, laug hún um staðsetningu þess. Lögreglan leitaði í klukkutíma eða þangað til Alexandra gaf þeim réttar upplýsingar um hvar barnið væri niðurkomið.
Loks fannst drengurinn í tjaldi, hann var kaldur enda var sex gráðu frost. Alexandra hafði ekki gert neitt til að vernda barnið frá kuldanum, hann var hvorki klæddur né með teppi. Hann grét ekki en hreyfði sig þó. Farið var með hann á slysadeild.
Þegar Alexandra var spurð að því hvers vegna hún hafi skilið barnið eftir í þessum aðstæðum sagði hún: „Hvað er okkur sagt að gera ef flugvél skyldi hrapa? Ég bjargaði sjálfri mér fyrst.“ Hún er talin hafa verið undir áhrifum fíkniefna við yfirheyrsluna. Hún sagðist hafa logið til um staðsetningu barnsins því hún óttaðist það að missa tjaldið sitt.
Lögregluþjónninn sem er yfir máli Alexöndru segir enga afsökun fyrir gjörðum hennar: „Fólki í þessari stöðu er alltaf boðin aðstoð. Hún kaus að nýta sér hana ekki og neitaði þegar reynt var að hjálpa henni. Fólki er frjálst að gera það sem það vill í þessari stöðu en þú ferð ekki svona með lítið barn. Ég ber fullan skilning á geð- og fíknisjúkdómum en þegar málið er svona, þegar líf barns er í húfi, missi ég allan skilning. Það er ekkert sem afsakar svona lagað.“
Alexandra hefur verið kærð fyrir vanrækslu á barni, annarrar gráðu líkamsárás, fölsun á sönnunargögnum og fyrir að koma lífi barns í hættu.