Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Draugur við Hornbjarg og tannlæknir í fjöru

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einangraðasti staður á Íslandi er væntanlega Hornbjargsviti við Látravík. Þangað kemur varla mannvera á tímabilinu frá ágústmánuði og fram í júní, þegar vaskur hópur frá Ferðafélagi Íslands mætir til að opna skála félagsins. Um tveggja mánaða skeið er ys og þys á þessum eyðislóðum þegar ferðamenn streyma þangað til að njóta útivistar við ysta haf og upplifa tíma sem einu sinni var.

Í dag er enginn vitavörður á Hornbjargi. Skálaverðir Ferðafélagsins greiða götu gesta og gangandi. Fólk gistir í gamla vitavarðarhúsinu og sumir fá sér landsfrægar fiskibollur Halldórs Hafdal Halldórssonar sem veiðir fiskinn, verkar og býr til bollurnar. Í næsta nágrenni við húsið skottast refir um, óhræddir við manneskjur. Það er enda bannað að drepa refi í friðlandinu.

Hornbjargsviti. Ferðafélag Íslands heldur úti gistiþjónustu á sumrin. Mynd: Guðrún Gunnsteinsdóttir.

Hornbjargsviti á sér langa sögu og sumpart heillandi sögu frá mannlífi sem var þar um áratugaskeið. Þjóðsagnapersónur á borð við Óla komma, Óskar Aðalstein og Jóhann vitavörð hafa markað sín spor á þessum slóðum; sumir lengur en aðrir. Eitt sumarið kom upp dularfullt atvik. Óli var á staðnum ásamt konu sinni þegar þau sáu göngumann koma aðvífandi. Hann gekk að vélarhúsinu við hlið íbúðarhúss vitavarðanna og staldraði þar við. Óli ætlaði að heilsa upp á hann, en þá brá svo við að gesturinn gekk hratt í burtu og hélt upp Axarfjallið. Kona Óla spurði hvort hann kannaðist eitthvað við manninn, en hann sagði svo ekki vera. „Hann er ekki þessa heims,“ sagði hann. Konan spurði þá hvernig hann vissi það. Óli sagði það vera einfalt. Það fylgdi honum enginn skuggi.

Vitavörður með tannpínu

Ótal sögur eru til frá tímum vitavarðanna. Hornbjargsviti var lengst af eina byggða bólið á öllum Hornströndum. Þeir dagar komu að einungis fuglinum fljúgandi var fært á þessar slóðir sem á vetrum eru gjarnan rammaðar inn af hafís og stálgráum fjöllum. Það er auðvelt að lifa sig inn í það þrekvirki þegar Jóhann vitavörður fór upp á Axarfjall með talstöð til að leiðbeina skipum fyrir Horn í gegnum hafísinn.

Greinarhöfundur á leið í Látravík.
Mynd: Guðrún Gunnsteinsdóttir.

Það komst í fjölmiðla þegar Óli vitavörður fékk tannpínu. Þá var mönnum vandi á höndum. Vitavörðurinn mátti ekki yfirgefa vaktina þótt varðskip gæti sótt hann og komið honum undir læknishendur. Lausnin varð endanum eins og með Múhamed og fjallið. Afráðið var að tannlæknir frá Ísafirði kæmi með varðskipinu til Látravíkur.

Hornbjarg.
Mynd: Pétur Ásgeirsson.

Þeir sem til þekkja vita að það getur verið erfitt að lenda í fjörunni undir vitanum. Þegar varðskipið kom siglandi með tannlækninn var á mörkunum að hægt væri að lenda. Það var því gert neyðarplan. Óli vitavörður varð að vera í fjörunni og helst með opinn munn. Gúmmbáturinn sætti lagi og lenti í fjörunni. Tannlæknirinn stökk upp í fjöru með þau tól sem þurfti. Á örskotsstundu dró hann skemmdu tönnina úr vitaverðinum og stökk aftur um borð í gúmmbátinn sem hélt þegar frá landi.

- Auglýsing -

Flestir þeir sem heimsækja Hornbjargsvita ganga sem leið liggur til Hornvíkur til að njóta þeirrar svimandi fegurðar sem þar er að finna. Algengt er að fara beint upp frá vitanum og um Kýrskarð. Sú leið er flestum fær. Hinn möguleikinn er að ganga með brúnum Hornbjargs, með fram Dögunarfelli, um Almenninga og koma niður að Hornbæjunum. Þeir sem þora koma við á Kálfatindi, hæsta punkti Hornbjargs. Sú ganga er ekki fyrir lofthrædda.

Það verður enginn svikinn af því að heimsækja Hornbjargsvita. Í skálanum er að finna mikið bókasafn með fróðleik um staðinn og svæðið allt. Þegar vindur og regn berja á húsunum er notalegt að hjúfra sig niður með bók í hönd og kynna sér sögu þessa dásamlega og hrikalega staðar andstæðnanna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -