Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Draumurinn sem dó varð kveikjan að tónlistarferlinum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir, betur þekkt sem tónlistarkonan GDRN, hefur verið á allra vörum undanfarna mánuði eftir að fyrsta plata hennar, Hvað ef, sló hressilega í gegn og sópaði til sín verðlaunum. Velgengnin hefur að sumu leyti komið Guðrúnu á óvart, enda ætlaði hún sér ekki að verða tónlistarkona heldur atvinnufótboltakona þegar hún var yngri. Slitin krossbönd bundu enda á þann draum og það var ekki fyrr en þá sem Guðrún hellti sér af fullum krafti út í tónlistina með þessum glæsilega árangri.

 

Guðrún Ýr hefur búið í Mosfellsbænum síðan hún var fjögurra ára og býr þar enn í foreldrahúsum með foreldrum sínum og tveimur yngri bræðrum. Hún hóf nám í fiðluleik fjögurra ára gömul og stundaði það í ellefu ár en ákvað þá að hætta og sneri sér að námi í djasssöng og seinna djasspíanóleik. Hún hafði þó ekki samið tónlist sjálf fyrr en eftir útskrift úr menntaskóla.

„Ég fór ekki að semja sjálf fyrr en ári eftir að ég útskrifaðist úr menntaskóla,“ segir Guðrún. „Það var ekki fyrr en þá sem ég þorði að prófa að semja tónlist sjálf. Ég átti í rauninni ekki von á þessum góðu móttökum, það er svo erfitt að dæma um það þegar maður hefur verið með hausinn á kafi í einhverju verkefni í meira en ár hvort einhverjum muni finnast það flott eða ekki. En það er óskaplega gaman að fólk skuli hafa tekið plötunni svona vel.“

„Þetta síðasta ár fól í sér rosalega mikið af nýjum verkefnum og giggum þannig að eins og staðan er núna get ég lifað af tónlistinni.“

Guðrún er nýorðin 23 ára, á kærasta og segist vera að reyna að spara til að geta keypt sér íbúð og losnað við leigumarkaðinn, sem sé hægara sagt en gert. Til að byrja með vann hún sem skólaliði í Mosfellsbæ með fram tónlistarsköpuninni en er nýhætt því til að einbeita sér að tónlistinni. „Þetta síðasta ár fól í sér rosalega mikið af nýjum verkefnum og giggum þannig að eins og staðan er núna get ég lifað af tónlistinni,“ útskýrir hún og segist vona að það verði þannig áfram.

Aldrei verið mismunað vegna kyns

En hvernig er að vera ung kona að hasla sér völl í tónlistarheiminum? Mikið hefur verið talað um hvað sá heimur sé karllægur og erfitt fyrir stelpur að komast þar inn, en Guðrún segir það ekki sína reynslu.

- Auglýsing -

„Ég held að ég og fleiri stelpur af minni kynslóð séum að koma af stað nýrri bylgju í tónlist,“ segir hún ákveðin.

„…ég hef í rauninni hingað til ekki upplifað neina mismunun vegna kyns míns, sem er mjög jákvætt.“

„Það hefur orðið mikil vitundarvakning í samfélaginu og bæði strákar og stelpur í tónlistarbransanum eru meðvituð um að það þarf að breyta og bæta viðhorfin í garð stelpna. Ég fæ þessa spurningu oft en ég get svarað því alveg hreinskilnislega að ég hef í rauninni hingað til ekki upplifað neina mismunun vegna kyns míns, sem er mjög jákvætt og ég vona að sú þróun haldi áfram og opni dyr fyrir aðrar stelpur að koma inn í fordómalaust tónlistarsamfélag. Við erum á leið þangað, eitt skref í einu, held ég.“

Guðrún er með nýja plötu í vinnslu og langar að koma henni út sem allra fyrst. „Það er svo erfitt að setja sér „deadline“ þegar maður er tónlistarmaður, manni er alltaf að detta eitthvað nýtt í hug.“

Guðrún hefur unnið mikið með karlmönnum úr rappbransanum, sem hefur sérstaklega illt orð á sér í þessum málum, vera kvenfjandsamlegur, en hún segist ekki hafa orðið vör við það.

- Auglýsing -

„Ég hef verið að syngja inn á fullt á plötum hjá röppurum og auðvitað eru þeir misfróðir um kvenréttindi en mér finnst margir þeirra hafa tekið vel á þeim málum, eins og til dæmis Logi Pedro og Unnsteinn og Emmsjé Gauti, sem hafa verið mjög kraftmiklir í femínismanum. Svo ég held að þetta orðspor eigi ekki lengur við rök að styðjast.“

Stelpur gagnrýnni á sjálfar sig

Guðrún hefur sjálf lagt femínískar áherslur í sinni framkomu, enda segir hún mikilvægt að hvetja stelpur til dáða og sýna þeim að þessi leið sé þeim fær alveg eins og strákunum.

„Foreldrar mínir hafa svolítið alið mig upp í þeirri trú að ég geti gert hvað sem er og ef mann langi að gera eitthvað þá eigi maður bara að gera það. Ég er líka dálítið meðvituð um að það sé nauðsynlegt að hvetja ungar stelpur til að gera það sem þær langar því margar ungar stelpur hafa sent mér skilaboð eða komið til mín og spjallað um hvernig þær komi sér á framfæri því þær þori ekki alveg að taka það skref. Ég held að stelpur séu yfirleitt gagnrýnni á sjálfar sig og það sem þær gera heldur en strákarnir. Ég var það líka þegar ég var að byrja, dauðhrædd við viðbrögð annarra á meðan strákarnir henda sér bara út í djúpu laugina og sjá til hvað flýtur.“

Var ástæðan fyrir því að þú fórst ekki að semja tónlist sjálf fyrr en upp úr tvítugu sem sagt þessi ótti við dóma annarra?

„Að einhverju leyti, kannski, en ég var ekki búin að setja stefnuna beint á einhvern söngferil, þannig að þegar ég útskrifaðist úr MR var ég alveg á því að fara í háskólanám, kannski í læknisfræði, en ég var dálítið óviss um hvað mig langaði að gera. Svo fékk ég styrk úr Minningarsjóði Vilhjálms Vilhjálmssonar sem borgaði upp tónlistarnámið og hafði þess vegna tækifæri til að bæta píanónáminu við. Þá ákvað ég að gefa mér ár til þess að hella mér alveg út í tónlistina og bara njóta þess og svo gæti ég farið í háskólanám. En eftir það ár var boltinn farinn að rúlla í söngferlinum sem tónlistarmaðurinn GDRN, og það varð ekki aftur snúið.“

Martröð fyrir lesblinda

Talandi um listamannsnafnið, sem hefur vafist fyrir mörgum, hvaðan kemur þessi skammstöfun eiginlega? „Heyrðu, það var eiginlega tilviljun,“ segir Guðrún og hlær.

„Um leið og maður útskýrir að þetta sé Guðrún án sérhljóða þá skilur fólk þetta yfirleitt.“

„Ég var að vinna með strákum sem heita Bjarki og Teitur og kalla sig ra:tio þegar við vorum öll nýbyrjuð í bransanum. Við ákváðum að senda fyrsta lagið sem við gerðum saman í mix og masteringu, bara til þess að klára það, og þegar við fengum það til baka hafði sá sem var að mixa og mastera tekið út alla sérhljóðana í nafninu mínu þannig að eftir stóð GDRN. Mér fannst það dálítið skemmtilegt og ákvað að nota það. Ég viðurkenni hins vegar að mörgum finnst þetta nafn mjög flókið og til dæmis fyrir fólk sem er lesblint er þetta algjör martröð. Ég hef verið í sjónvarpsviðtölum þar sem fólk ruglast alveg til hægri og vinstri í þessu, en um leið og maður útskýrir að þetta sé Guðrún án sérhljóða þá skilur fólk þetta yfirleitt. Ég sé það svona eftir á að ég hefði kannski átt að fara aðeins auðveldari leið í nafngiftinni.“

Fyrsta lagið sem Guðrún gaf út undir eigin nafni var Ein, sem kom út sumarið 2017 og fékk góðar viðtökur. Síðan hefur ekkert lát verið á útgáfunni frá henni og nú vinnur hún að plötu númer tvö, það eru ansi mikil afköst á tæpum tveimur árum, ekki satt? „Eftir að fyrsta lagið kom út þarna vorið 2017 gaf ég út annað lag í lok þess árs. Þarnæsta lag kom út sumarið 2018 og svo kom platan mín, Hvað ef, út í ágúst 2018, þetta hefur verið heilmikil keyrsla.“

Fárveik eftir Íslensku tónlistarverðlaunin

Hvað ef fékk geysigóðar viðtökur og Guðrún fór heim með fern verðlaun af Íslensku tónlistarverðlaununum í ár, hún segist hafa verið alveg búin á því eftir það.

„Ég fór í svo mikið spennufall að ég var bara fárveik í þrjár vikur eftir verðlaunaafhendinguna,“ segir hún hlæjandi. „Ég held ég hafi bara aldrei orðið svona veik á ævinni, fór á sýklalyfjakúr og allt, ég bara hrundi.“

Álagið sem fylgir skyndilegri frægð og velgengni getur verið mikið en Guðrún segist ekki hafa lent í neinum óþægilegum atvikum eftir að hún varð þekkt andlit. „Þetta hefur náttúrlega gerst svakalega hratt,“ segir hún.

„Viðbrögðin sem ég hef fengið hafa verið miklu meiri en ég bjóst nokkurn tímann við. Fyrir utan Íslensku tónlistarverðlaunin hef ég fengið alls konar verðlaun sem er í rauninni alveg fáránlegt. Ég fékk bæði Kraumsverðlaunin og tónlistarverðlaun Grapevine og svo var ég tilnefnd til Nordic Music Prize og fór til Óslóar til að taka þátt í verðlaunaafhendingunni. Áhugaverðast þar var að tíu af tólf tilnefndum plötum voru sólóverkefni kvenna, það hafði aldrei gerst áður. Þannig að það er mikill uppgangur í tónlist hjá konum. Það er alda af tónlistarkonum sem ég held að fari að verða mjög áberandi núna. Sem er mjög jákvætt og skemmtilegt.“

Þótt Guðrún hafi lært djasssöng flokkast tónlistin hennar ekki sem djass og hún segir í rauninni dálítið erfitt að setja einhvern ákveðinn stimpil á hana. „Þetta er náttúrlega flokkað sem popp,“ segir hún. „En þetta er mjög mikil blanda af hinu og þessu. Strákarnir sem ég hef verið að vinna með hafa mikið unnið með rapp og R’n’B-tónlist og svo kem ég bæði með klassískan og djassaðan bakgrunn í söng, þannig að ég held að megi flokka mína tónlist sem einhvers konar blöndu af R’n’B, djassi og poppi.“

Í fjölskylduboðum með átrúnaðargoðinu

Spurð hvaða söngkonur séu hennar helstu fyrirmyndir, hvaða söngkonum hún hafi verið hrifnust af þegar hún var yngri er Guðrún fljót að svara. „Ég var rosalega hrifin af Birgittu Haukdal og Jóhönnu Guðrúnu,“ segir hún.

„Þær voru alveg í guðatölu. Ég man að á tímabili var Jóhanna Guðrún oft í Stundinni okkar og ég lá alveg heilluð fyrir framan sjónvarpið og spurði mömmu hvort hún héldi að ég mætti fara að syngja í Stundinni okkar líka. Hún benti mér á að ég yrði allavega að verða aðeins eldri fyrst, en útilokaði það ekki. Svo var Birgitta Haukdal alveg rosalega fræg á þessum tíma og ég var alltaf að hlusta á hana og Jónsa í Grease. Ég átti lítinn geislaspilara með heyrnartólum og hjólaði um allt hverfið með Írafár alveg á blasti. Mér fannst Birgitta svo æðisleg.“

forsíða, GDRN, Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir, Mannlíf, tónlist, tónlistarkona, ML1904035861, Aldís Pálsdóttir

Spurð hvort hún hafi hitt Birgittu eftir að hún fór sjálf út í tónlistarbransann fer Guðrún að skellihlæja og segir að það sé nú gott betur en það. „Sko, pabbi kærastans míns er bróðir Birgittu Haukdal,“ segir hún og hlær enn meira.

„Þannig að ég er alltaf að hitta hana í fjölskylduboðum. Það finnst mér ótrúlega skemmtileg tilviljun. Þegar ég hitti hana fyrst var ég auðvitað með smá stjörnur í augunum eftir að hafa litið svona mikið upp til hennar þegar ég var lítil, en það vandist fljótt. Hún er líka alveg frábær og hefur gefið mér fullt af góðum ráðum fyrir tónlistarbransann.“

Dálítil tilfinningaklausa

Guðrún semur alla sína texta sjálf, hvaðan koma hugmyndirnar að þeim, er einhver sérstakur boðskapur sem hún vill koma á framfæri? „Það er bara voðalega misjafnt,“ segir hún hugsi.

„Þegar ég gerði fyrstu plötuna var mjög lítil pressa, þannig að ég var bara að semja um einhver tilfinningaleg mál, það að hætta með einhverjum eða eitthvað í þá áttina. Það var dálítil tilfinningaklausa í þessum textum. Stundum voru þetta bara einhverjar setningar sem mér duttu í hug, svo skáldaði ég bara í kringum þær. Sumt var rosalega einlægt, annað voru einhverjar hugmyndir héðan og þaðan. Maður fær líka stundum innblástur af því að hlusta á aðra tónlist og fer að semja eitthvað út frá því. Ég hef í rauninni ekkert skýrt markmið með textagerðinni enn þá. Það verður meira í næsta verkefni, bæði tónlistarlega og textalega. Þar er ég að vinna út frá heildarhugmynd, það verður miklu heildstæðari plata en sú fyrsta.“

Margar tónlistarkonur hafa kvartað undan því að karlarnir sem þær hafa unnið með eigni sér oft heiðurinn af verkum þeirra. Guðrún segist aldrei hafa upplifað neitt í þá áttina.

„Við sem vinnum saman erum sem betur fer öll óskaplega ánægð hvert með annað,“ segir hún með sannfæringu. „Þeir eru ekkert að taka kredit fyrir mín verk en það er auðvitað líka þeirra verk að þessi plata varð til og við erum mjög dugleg við að gefa hvert öðru kredit. Það er enginn rígur. Við virðum hvert annað fullkomlega.“

Auk þess að fylgja fyrstu plötunni eftir og vinna að þeirri næstu er Guðrún á fullu við að koma fram við alls konar tækifæri. Hún segir það eiginlega hafa komið sér mest á óvart hvað hún sé oft beðin um að koma fram.

„Það hefur verið alveg ofboðslega mikið af því,“ útskýrir hún. „Ég hef sungið á alls kyns árstíðum og fram undan er söngur í hverju brúðkaupinu af öðru og alls kyns aðrir viðburðir. Ég hef bara alveg brjálað að gera, sem betur fer.“

Slitin krossbönd og draumurinn sem dó

Þótt tónlistin hafi alla tíð verið stór þáttur í lífi Guðrúnar segist hún ekki hafa stefnt að því að leggja hana fyrir sig sem ævistarf þegar hún var yngri. Hana dreymdi um allt aðra frægð og frama en örlögin gripu í taumana.

„Ég byrjaði snemma að æfa og spila fótbolta með Aftureldingu og var mjög efnileg,“ útskýrir hún. „Ég ætlaði mér alltaf að komast í nám út til Bandaríkjanna á skólastyrk út á fótboltann. Ég hafði í rauninni ekki annað markmið á þeim tíma. Rétt áður en ég byrjaði í menntaskólanum sleit ég hins vegar krossband í fætinum og gat ekki spilað um tíma. En ég fór í aðgerð og stefndi alltaf á að koma aftur inn í fótboltann því ég hafði svo mikinn metnað. Stuttu eftir að ég komst aftur að spila gerðist það sama aftur og ég þurfti í aðra aðgerð. Þá var þetta búið. Sá draumur fór í vaskinn.“

Þegar einn draumur endar tekur annar við og það má eiginlega segja að meiðslin hafi orðið til góðs því það var í kjölfar þeirra sem Guðrún ákvað að leggja tónlistina fyrir sig.

„Þá var ég hætt í fiðlunáminu, var búin að missa áhugann þar,“ segir hún. „En eftir seinni meiðslin ákvað ég að breyta um stefnu og fara út í sönginn, þannig að ef ég hefði ekki slasast svona í fótboltanum hefði ég aldrei orðið söngkona.“

Þú talaðir um að þú hefðir verið að hugsa um nám í læknisfræði, var það gamall draumur? „Nei, eða ég veit það ekki. Ég hafði alltaf áhuga á að fara í læknisfræði eða sjúkraþjálfun eða eitthvað annað sem tengdist því að hjálpa fólki,“ útskýrir Guðrún. „Ég fékk mjög mikinn áhuga á sjúkraþjálfun eftir að ég var svona mikið í sjúkraþjálfun en það þróaðist svo út í löngun til að verða læknir. Ég fór í MR þar sem mikil áhersla er lögð á að fólk sé vel statt fyrir læknanám eftir stúdentspróf. Ég var á náttúrufræðibraut þannig að ég hafði einhverja smávegis hugsjón um gaman gæti orðið að verða læknir. En ég veit ekki hvað verður. Eins og staðan er núna á tónlistin hug minn allan og ég er ekkert að velta fyrir mér að gera eitthvað annað á næstunni. Ég bý hins vegar að því að foreldrar mínir hafa kennt mér að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar og maður á aldrei að útiloka neitt, svo við sjáum bara til.“

Mikilvægast að hlusta á sjálfa sig

Þegar ég spyr hvenær nýja platan sé væntanleg, verður Guðrún óákveðin í svörum í fyrsta sinn í viðtalinu, en segir þó að hana langi til þess að koma henni út sem allra fyrst. „Kannski í sumar,“ segir hún.

„Það er ekki alveg ákveðið. Það er svo erfitt að setja sér „deadline“ þegar maður er tónlistarmaður, manni er alltaf að detta eitthvað nýtt í hug og það er alltaf eitthvað sem kemur upp á, en já, ég vil koma henni út eins fljótt og hægt er.“

Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér? Heldurðu að þú verðir ennþá í tónlistarbransanum þegar þú verður fimmtug?

„Ég vona það, en það er aldrei að vita,“ segir Guðrún og brosir breitt. „Það sem mig langar mest til núna er að fara út og í tónleikaferðalag þar, helst að spila á Hróarskeldu, það hefur mig lengi langað til að gera. En ég veit ekki hvernig þetta þróast allt saman. Þegar ég byrjaði hafði ég ekki neinn rosalegan draum um hvað ég vildi, en ég hef mjög mikinn metnað og er alveg heltekin af því sem ég geri. Svo finnst mér gaman að sjá bara hvert það fer, þannig að ég set enga pressu á mig varðandi hvert stefnan er tekin.“

Spurð hvað hafi komið henni mest á óvart í tónlistarbransanum verður Guðrún dálítið hugsi. „Eiginlega það hvað jákvæð viðbrögð geta haft mikil áhrif á mann, bæði til góðs og ills,“ segir hún hægt.

„Það er alltaf verið að minna mann á að vera viðbúinn neikvæðum viðbrögðum og að einhverjir muni ekki fíla tónlistina manns og það gerist auðvitað alveg að maður fái neikvæð skilaboð og athugasemdir. En það er miklu algengara að ég fái jákvæð viðbrögð frá fólki og falleg skilaboð um hvað fólki þyki vænt um tónlistina mína, sem er alveg æðislegt. Því fylgir hins vegar líka ákveðin pressa um að það næsta sem maður gerir verði æðislega gott, að maður þurfi að standa undir einhverjum ákveðnum standard. Það getur ruglað mann en mikilvægasta lexían sem ég hef lært af þessu er að maður á alltaf að hlusta á sjálfan sig, ekki gera hlutina út frá því sem maður heldur að öðrum eigi eftir að finnast. Ef maður er sjálfur ánægður með verkin sín þá er þetta þess virði að gefa út. Það er eina viðmiðunin sem hægt er að hafa.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -