Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Lífsreynslusaga Mannlífs: Draumurinn sem varð að martröð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Seint á síðustu öld var ég 18 ára og nýlega búinn að eiga hamskipti. Ég fór úr því að vera vandræðalegur, horaður, síðhærður spangarunglingur yfir í nokkuð brattan, ágætlega útlítandi ungan mann, með greitt í píku að vísu en nokkuð frambærilegur að öðru leyti. Ég hafði fram að þessu ekki verið neitt sérstakt kvennagull, hafði átt eina kærustu í mánuð en annars bara látið mig dreyma um hylli kvenna.

Ég bjó úti á landi á þessum árum og var í menntaskólanum í bænum mínum. Ball var á næsta leyti þegar þessi lífsreynslusaga hefst. Ekki man ég hvaða band var fengið til að spila á ballinu, en ef það var ekki Sálin hans Jóns míns var það sennilega Síðan skein sól, þannig að von var á fullu húsi.

Systir mín, Stefanía, hafði stuttu áður kynnst förðunarfræðingi frá Reykjavík sem við skulum kalla Guðrúnu. Hún var 24 ára og hress, að sögn systur minnar. Guðrún hafði fengið boð á ballið frá fjórða árs nema úr næsta bæjarfélagi en vantaði gistingu. Systir mín spurði móður okkar hvort Guðrún fengi að gista hjá okkur og að hún lofaði að mála mömmu í þakklætisskyni. Mamma var treg til, enda um ókunnuga konu að ræða, en sló svo til eftir frekara suð frá systur minni.

Ég mætti á ballið vel slompaður eftir fyrirpartí og gerði mig gildandi á dansgólfinu. Allt í einu stóð stórglæsileg stelpa fyrir framan mig og ég upplifði eitthvað sem ég hafði aldrei upplifað áður; rafmagnaða kemistríu. Hún horfði í augun á mér og færði sig nær og spurði hvort ég væri bróðir Stefaníu. Ég sagði svo vera og hafði varla sleppt orðinu þegar tungur okkar mættust í því sem mér fannst mjög kynþokkafullur koss, en gæti trúað að nærstödd vitni hafi ekki verið sammála því mati mínu. En við smullum líka svona rosalega vel saman þarna á ballinu, slefið slitnaði ekki á milli okkar og hendur okkar könnuðu nýjar lendur, ef svo má að orði komast. Kannski má það ekki í dag og biðst ég þá afsökunar á því. Og svo fór að við fórum saman heim.

Þegar heim var komið héldu kossarnir og káfið áfram, en við komumst ekki lengra en í sófann inni í stofu. Ég var ekki að trúa hvað var að gerast, draumur lúðans með spangirnar var að rætast, íturvaxin og falleg kona hafði áhuga á mér! Af öllum karlmönnunum á ballinu hafði hún bara áhuga á mér! Við vorum byrjuð að stunda kynlíf í sófanum (róleg, ég henti laki á sófann), en þá gerðist svolítið sem fékk mig til að raula Paradise by the Dashboard Light með Meat Loaf í huga mér:

Stop right there!
I gotta know right now!
Before we go any further!
Do you love me?
Will you love me forever?
Do you need me?
Will you never leave me?
Will you make me so happy for the rest of my life?
Will you take me away and will you make me your wife?
Do you love me!?
Will you love me forever!?

- Auglýsing -

Guðrún tók sem sagt þessa ræðu á mig. Sagðist ekki vilja sofa hjá mér nema með því loforði að við myndum byrja í sambandi í kjölfarið. Á þessu augnabliki var hormónastarfsemin í ungum líkama mínum að vinna yfirvinnu, allar æðar þandar og aðeins örlítið blóð eftir í hausnum. Ég sagði að sjálfsögðu „Já ókei!“, en Guðrún sendi mig í herbergið mitt þar sem ég átti að hugsa málið í 15 mínútur. Ég hlýddi og fór inn í herbergi. En ég hugsaði ekkert í 15 mínútur, ég beið bara. Greddan var skynseminni yfirsterkari. Kortéri síðar mætti ég aftur inn í stofu og tilkynnti Guðrúnu að ég gengist við skilyrðum hennar. Fórum við svo inn í herbergi mitt og áttum frábæra nótt saman.

Um klukkan 11 daginn eftir, vaknaði ég þynnri en silkiklútur Meat Loaf og þegar ég var að skríða á fætur hoppar Guðrún inn í herbergi með bros og vör. „Hæ, elskan!“ sagði hún og tjáði mér svo að hún væri búinn að tala við gamla grunnskólastjórann minn og spurt hann hvort hann væri með lausa stöðu í skólanum og að hann ætlaði að hugsa málið. Þá sagði hún mér að hún væri einnig búin að hringja í eigendur lausra íbúða í plássinu, því við værum að fara að flytja inn saman. Ég fann að hjartað á mér byrjaði að slá hraðar en nokkru sinni og ég fann að andlitið á mér tók að skipta um lit og varð eldrautt á mettíma.

Ástæðan fyrir þessari líðan var tvenns konar. Annars vegar helltist skömmin yfir mig fyrir að hafa logið að henni að ég vildi byrja með henni, svo hún svæfi hjá mér og hins vegar vegna þess að nú yrði ég að koma mér undan þessu óvænta fullorðinssambandi sem ég var kominn í.

- Auglýsing -

Ég settist niður með henni og sagði henni sannleikann. Ég hafi bara verið spólgraður, 18 ára vitleysingur sem hefði sagt hvað sem er til að halda áfram leiknum, nóttina áður. Að segja að hún hefði tekið þessum (að mér fannst augljósa) sannleika illa væri vægt til orða tekið.

Hún fékk ofsakvíðakast, ofandaði og grét. Alls ekki það sem ég bjóst við, enda þekktumst við akkúrat ekkert. Ég fór með hana á heilsugæsluna þar sem læknir sem ég þekkti ágætlega tók við okkur. Eftir að læknirinn hafði rætt við hana í einrúmi í dágóða stund talaði hann við mig einslega. Byrjaði hann á að skamma mig fyrir að stunda skyndikynni með ókunnugri konu. Svo sagði hann mér að keyra hana beint á flugvöllinn svo hún kæmist sem fyrst aftur til Reykjavíkur. Við Guðrún skildum á góðum nótum, ræddum málið og allt í góðu. Ég jafnvel hitti hana aftur í eitt skipti í næstu Reykjavíkurferð, en það er saga sem verður að bíða betri tíma.

Þessi lífsreynslusaga sýnir hversu ólík upplifun tveggja ungra einstaklinga getur verið, en þetta kenndi mér að vera heiðarlegri í samskiptum mínum við hitt kynið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -