Fjölmiðlar eru kannski ekki margir hér á landi og þykir starf fjölmiðlamanna oft á tíðum bæði skemmtilegt, vanþakklát, illa borgað og vanmetið starf. Eigi að síður eru margir sem eiga sér þann draum að starfa við fjölmiðla. Og fyrir þá gæti tækifærið nú verið komið, fyrir einn heppinn umsækjanda sem hlýtur hnossið.
Torg ehf, sem gefur út Fréttablaðið, og heldur úti samnefndum vef, frettabladid.is og sjónvarpsstöðinni Hringbraut leitar nú eftir starfsmanni í fast starf frá klukkan 9-17. Starfsmaður á þó hvorki að standa fyrir framan né aftan myndavélina heldur snýst hluti starfsins um förðun. En starfslýsingin er fjölbreyttari.
Viðkomandi starfsmaður þarf einnig að taka að sér almenn þrif á skrifstofuhúsnæði auk þess að hafa umsjón með eldhúsi starfsfólks. Einnig felst í starfinu að sjá um almenn innkaup á rekstrarvörum, sem væntanlega eru allt frá bréfaklemmum til skrifborða.
Sigurður Mikael Jónsson, sem starfaði sem blaðamaður hjá Fréttablaðinu í nokkur ár og áður á DV, en starfar nú sem upplýsingafulltrúi Unicef á Íslandi, vakti athygli á auglýsingunni á Twitter í gær. Mikael sagðist hafa tárast af hlátri þegar hann sá auglýsinguna.
„Það er alveg ljóst að þú finnur ekki sminku/ræstitækni/matráð sem sér líka um að panta klósettpappír nema þú auglýsir #fjölbreytt“
Það er alveg ljóst að þú finnur ekki sminku/ræstitækni/matráð sem sér líka um að panta klósettpappír nema þú auglýsir. #fjölbreytt pic.twitter.com/7f7GbZIoKN
— S. Mikael Jónsson (@S_Mikael_J) February 29, 2020