Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.7 C
Reykjavik

Drífa Snædal: „Ætli ég hafi ekki verið að undirrita dauðayfirlýsingu mína“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það var svo sem ekkert ákveðið sem gerðist,“ segir Drífa Snædal í viðtali við Reyni Traustason en hún tilkynnti í dag afsögn sína sem forseti ASÍ. „Ég er búin að vera að velta því fyrir mér síðustu mánuði hvort ég væri tilbúin til að gefa kost á mér aftur og ég svo sem hugsaði það þegar ég bauð mig fram á sínum tíma; ég hugsaði þetta til fjögurra til sex ára svona með sjálfri mér án þess að gefa það út. Svo hugsaði ég hvort ég ætti að bjóða mig fram aftur og það var alls ekkert víst að ég næði kjöri en ég hefði þurft að vera tilbúin til að ná kjöri og vinna áfram í tvö ár ef ég biði mig fram aftur. Og ég var bara ekki tilbúin til þess. Þetta er búið að vera erfitt og flókið og dregið úr mér svolítið kraft og mátt. Og þá hugsaði ég og ég get lýst því yfir núna að ég ætli ekki að bjóða mig fram og þá er ég einhvern veginn umboðslaus og hringlandi í tvo mánuði fram að þingi. Og það var heldur ekki einhver staða sem mig langaði að vera í. Þannig að mér fannst hreinlegast að segja af mér.“

Er þetta ekki sársaukafull ákvörðun?

„Ekki þegar búið er að taka hana. Það sem er sársaukafullt í þessu er að mér finnst ég að einhverju leyti vera að bregðast stuðningsmönnum mínum. Og það er sárt. Af því að það er mjög mikið af fólki sem ég átti í mjög góðu samstarfi við og mér þykir vænt um og vinátta hefur myndast í þessum störfum.“

Ekki samherji Gylfa

Þetta eru stór tíðindi. Það er ólga. Það er væntanlega Sólveig Anna, Ragnar og Vilhálmur á móti rest.

„Það er nú ekki alltaf kýrskýrt og það sem var alltaf verið að reyna að fanga var einhver málefnalegur ágreiningur. Hann liggur ekki alveg ljóst fyrir. Ég hef lýst þessu sem valdabandalagi umfram annað og hafa verið að skýrast þær línur. Ég hef svo sem ekki skilgreint mig með einhverri blokk umfra aðra. Mitt viðhorf var þannig þegar ég bauð mig fram fyrir fjórum árum síðan að ég sóttist ekki eftir stuðningi frá neinum. Ég hef reynt að koma í veg fyrir að vera hluti af einhverjum blokkum einhvers staðar.“

- Auglýsing -

Sólveig Anna eða Ragnar sagði að þú værir hluti af einhverjum valdakjarna Gylfa, fyrrverandi forseta.

Ég held að fólk hafi alveg orðið vart við það að það kom nýr tónn með mér inn í forystu ASÍ.

„Mér finnst það alveg ótrúlega langsótt. Ég held að fólk hafi alveg orðið vart við það að það kom nýr tónn með mér inn í forystu ASÍ. Ég var ekki samherji Gylfa á neinn hátt. Þannig að mér fannst þetta frekar langsótt skýring.“

Þessi valdablokk; þetta er einhver blokk, Vilhjálmur, Ragnar og Sólveig. Hversu mikið afl hafa þau á þingi ASÍ?

- Auglýsing -

„Það er ekkert alveg ljóst. Það eru margir fulltrúar sem eru á þinginu fyrir Eflingu og VR. Þeir eru ekkert endilega að greiða atkvæði samkvæmt einhverri harðlínu. Fólk er með sitt eigið atkvæði inni á þingunum.“

Þú kannski metur það sem svo að það myndi ekkert lagast þó þú héldir áfram; það væri ennþá klofningur?

„Ef ég biði mig fram þá yrði ég að vera tilbúin til að halda áfram og samskiptin hafa verið þannig að ég ákvað að gera það ekki. Ég er náttúrlega búin að vera að reyna ýmislegt; fjölga fundum og fækka þeim, fá utanaðkomandi aðstoð og hitt og þetta,“ segir Drífa en með utaðkomandi aðstoð á hún við sérfræðing í samskiptum. Upp á að laga þau.

Þú talar svolítið um samskipti í yfirlýsingunni. Í hverju felst „ekki boðleg samskipti“? Er þetta orðið svona illvígt og persónulegt?

Þegar þú getur átt von á hryllilegum tölvupóstum eða ömurlegum átökum á einhverjum fundum trekk í trekk.

„Já, þetta er það. Ofboðslega persónulegt. Ég held að fólk hafi séð það á yfirlýsingunni að það er komin einhver stemmning. Fólk þorir ekki alveg að segja hug sinn af því að þá getur það orðið fyrir persónuárásum. Það er einhver þannig stemmning og þegar þú getur átt von á hryllilegum tölvupóstum eða ömurlegum átökum á einhverjum fundum trekk í trekk.“

Erum við að tala um skæting?

„Skæting. Og á tímabili voru endalausar hótanir um afsögn eða úrsögn einhverra stéttarfélaga úr ASÍ ef það væri ekki gert svona eða hinsegin. Þannig að þetta er búið að vera mjög óheilbrigt. Ég verð sjálf óheilbrigð við að taka þátt í þessu; maður er að taka þátt í einhverjum samskiptum sem maður er ekki sáttur við. Og á sama tíma að vera í stöðu sem forseti þá áttu erfitt með að segja hlutina eins og þeir eru. Það að segja af þér gefur þér ákveðið frelsi til að tala. Það er einhver stemmning þarna sem er alveg agaleg og engum líður þar sérlega vel held ég.“

Hvenær fór að bera á þessum klofningi? Var ekki ágætt á milli þín, Sólveigar og Ragnars í upphafi?

Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem verkalýðsforingjar segja af sér af því að það er ekki farið að kröfu þeirra um að skerða réttindi vinnandi fólks.

„Jú, en ég veit ekki hvort einhverjir hafi átt erfitt með að sætta sig við það að ég væri í þessum stól yfir höfuð frá upphafi. En það var þannig þegar Covid skall á að þá héldum við marga fundi í samninganefnd ASÍ og ég setti á fundi nærri því á hverjum einasta degi út af þessu ástandi,“ segir Drífa og voru margar hugmyndir reifaðar og nefnir hún þrýsting á að frysta launahækkanir. „Síðan var það eindóma og mjög skynsöm ákvörðun og niðurstaða samninganefndar ASÍ að standa vörð um samningana, slá hvergi af. Þá kom í ljós að Vilhjálmur og Ragnar höfðu verið í einhverjum öðrum samtölum hjá Samtökum atvinnulífsins um að fresta hluta af lífeyrissjóðsframlagi atvinnurekenda til vinnandi fólks. Og þeir voru ósáttir við niðurstöðu þessarar samninganefndar ASÍ og sögðu af sér í kjölfarið. Vilhjálmur var þá fyrsti varaforseti og Ragnar í miðstjórn. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem verkalýðsforingjar segja af sér af því að það er ekki farið að kröfu þeirra um að skerða réttindi vinnandi fólks. Þannig að það var mikið sjokk og ótrúleg í rauninni þessi ákvörðun þeirra.“

Drífa Snædal

Misbauð svo svakalega

Svo kom upp þetta makalausa mál varðandi brottrekstur starfsfólks á skrifstofu Eflingar og Drífa tók mjög skýra afstöðu þar.

„Ætli ég hafi ekki verið að undirrita dauðayfirlýsingu mína þar. Nei, ég ætla ekki að taka svona gróft til orða. Það er ekkert lítil ákvöðrun að tala gegn formanni í einu stærsta aðildarfélagi ASÍ og ákvörðun stjórnar Eflingar. Efling er stórveldi innan ASÍ. En mér bara misbauð svo svakalega og mér fannst eins og það væri verið að skilja fólk eftir úti á berangri sem þyrfti stuðning síns stéttarfélags ef allt væri með felldu. Þess vegna ákvað ég að stíga svolítið hressilega til jarðar þar. Þá vissi ég að þetta yrði ekki til vinsældar fallið víða.“

Þú hefur kannski vitað að þetta myndi kosta það að það væri heppilegra að stíga frá þessu?

„Ég var svo sem ekki búin að setja það í samhengi við mína stöðu þá en bara það að sitja sem forseti og tala gegn stjórnarákvörðun Eflingar og eins og þegar ég svaraði Ragnari þegar hann var búinn að skrifa svona 50 blaðagreinar um allt og ýmislegt og svolítið ófókuserað um hvað þetta væri agalegt hjá mér allt saman og ASÍ og ASÍ-báknið. Þá svaraði ég honum og það er erfitt að sitja sem forseti og vera að gagnrýna forystumenn í verkalýðshreyfingunni. Og þegar Efling og ASÍ og nokkrir í viðbót leggja saman krafta sína þá eru þeir meira en helminguirnn innann ASÍ.“

Síðan var bara aumingjasakpur margra í hreyfingunni að fordæma þetta ekki.

Aftur að brottrekstri starfsfólks Eflingar. Hvernig gat þetta gerst? „Ég skil það bara mjög illa. Ég veit að Sólveig Anna hefur gert ákveðið listform úr því að búa til óvini og finna óvini. Það er nánast heillandi að fylgjast með því á köflum. Síðan var bara aumingjaskapur margra í hreyfingunni að fordæma þetta ekki. Alger aumingjaskapur. Og ég fann það þegar við fórum inn á fund miðstjórnar Alþýðusambandsins og ég var svo sem alveg viðbúin að leggja það fram við miðstjórn ASÍ að við myndum fordæma þetta sem miðstjórn en ég fann það starx að ég myndi ekki hafa það í gegn. En ég fyrir mitt leyti ákvað að fordæma þetta.“

 

Mikil orka í innri átök

Hver er vígstaða verkalýðshreyfingarinnar? Er hún þannig að það sé hægt að fara í hörð átök? Eða er fólk alltaf of upptekið af innri átökum?

„Það fer ótrúleg orka í innri átök sem ætti að fara annað. Nú veit ég ekki hvað gerist en ef fólk nær að stilla saman strengi og koma sæmilega sameinað til viðræðna þá getur það gengið vel. Ég sé ekki annað en að stjórnvöld þurfi að koma inn í þær viðræður því að húsnæðismálin og efnahagsmálin eru náttúrlega rosalegur þáttur í kaupmáttaraukningu og lífsgæðum. Hvernig það tekst til er í höndum annarra en mín núna.“

Stundum hafa félögin farið hvert fyrir sig en svo hefur Alþýðusambandið stundum farið með umboð fyrir alla.

„Já, sérstaklega gagnvart stjórnvöldum. Alþýðusambandið hefur í sjálfu sér aldrei farið með umboðið fyrir alla í því að gera stóra kjarasamninga. Það eru í rauninni landssamböndin hvert um sig sem gera það og í rauninni er samningsumboð hjá hverju einasta stéttarfélagi á landinu. Svo sameinast þau. En okkar aðkoma hefur aðallega verið gagnvart stjórnvöldum og stórum línum og þáttum sem hafa verið þeir sömu í ölllum kjarasamningum: Forsenduákvæði, tryggingar og eitthvað slíkt sem eru gegnumgangandi grundvallarréttindi á vinnumarkaði. Ekki endilega krónutöluákvæðin. Þannig að það hefur verið á borði ASÍ að taka stóru ákvarðanirnar.

Það eru ekki allir búnir að birta kröfugerðir; það eru ekki allir búnir að segja við ætlum að fara fram með þessa kröfu í komandi kjarasamningum og það er ekki byrjað að setjast niður og tala saman. Þannig að mér finnst vera ótímabært að vera að hóta verkföllum áður en það er byrjað. Og það verður þá að koma í ljós hvernig það verður.“

Hins vegar var orðin pínu stemmning í þessari blokkamyndun að ég væri vandamálið.

Er kominn friður í verkalýðshreyfinguna fyrst Drífa er farin eða heldur þetta áfram að grassera?

„Ég veit það ekki. Hins vegar var orðin pínu stemmning í þessari blokkamyndun að ég væri vandamálið. Ég er allavega búin að fjarlægja það. Þannig að þá kemur í ljós hvað verður. Ég á marga stuðningsmenn innan hreyfingarinnar. Það eru margir sem tala við mig; fólk sem kannski treystir sér ekki alltaf til þess að tala opinberlega og er frekar í því að reyna að sætta og miðla málum.“

Kristján Þórður tekur við af Drífu. Er hann í einhverri blokk?

„Nei. Ég held að Kristján Þórður reyni að sigla á milli skers og báru. Ég veit ekki alveg hvernig hann ætlar að halda á þessu. Og ég var ekkert að gera honum sérstaklega mikinn greiða með því að hringja í hann í morgun og segja honum hvað dagurinn bæri í skauti sér.“

Var honum brugðið?

„Já, ég held það.“

Sjá má viðtal Reynis við Drífu hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -