Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Drífa Snædal: „Ég óttast að ríkissáttasemjari hafi ekki hugsað þetta til enda“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Drífa Snædal fyrrverandi forseti ASÍ segir í Facebook-færslu á síðu sinni að „með ákvörðun sinni að leggja fram miðlunartillögu er ríkissáttasemjari heldur betur að teygja á heimildum sínum. Það er véfengjanlegt að hann hafi þessar heimildir án samráðs við deiluaðila en heimildir Eflingar til að semja fyrir sitt fólk og undirbúa verkfallsaðgerðir eru óvéfengdar. Sama hvað fólki kann að finnast um framgöngu samninganefndar Eflingar.“

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.

Bætir við:

„Með þessu er ríkissáttasemjari að nýta til hins ýtrasta sínar valdheimildir og jafnvel aðeins umfram það og þetta er stórhættulegt fordæmi fyrir deilur á hinum íslenska vinnumarkaði. Þegar einu sinni er búið að taka svona ákvörðun er hætt við að hún verði tekin aftur og aftur og aftur. Það er nánast ómögulegt fyrir félagsmenn að fella slíka miðlunartillögu, það þarf töluvert meiri kosningaþátttöku til að fella tillöguna en náðst hefur hingað til í almennum atkvæðagreiðslum. Ef þetta er það sem koma skal á íslenskum vinnumarkaði er verið að draga úr möguleikum og heimildum einstakra stéttarfélaga til að ráða sínum málum sjálf og beita því eina vopni sem launafólk býr yfir – að leggja niður störf. Ég óttast að ríkissáttasemjari hafi ekki hugsað þetta til enda.“

Hún segir einnig að „hætt er við að deilan fari í enn meiri hnút og traust til embættis ríkissáttasemjara minnki hjá launafólki á Íslandi. Það er hins vegar mín skoðun að félagar í Eflingu hefðu átt að fá að greiða atkvæði um það tilboð sem lá á borðinu en það á að gerast á félagslegum grunni en ekki með valdboði ríkissáttasemjara.“

Drífa nefnir að endingu að „með þeirri stöðu sem nú er komin er hætt við að launafólk upplifi einmitt það, valdboð að ofan í stað félagslegra lausna innan síns félags.

Það er ljóst að stjórnvöld og atvinnurekendur hafa látið sig dreyma um auknar valdheimildir ríkissáttasemjara en það hefur verið í andstöðu við verkalýðshreyfinguna. Að ríkissáttasemjari taki sér þetta vald núna verður varla til að efla samtal um bætt vinnubrögð í samningagerð og getur haft alvarlegar afleiðingar á samskipti á vinnumarkaði til lengri tíma.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -