Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir flugfélagið Play vera „stórhættulegt íslensku launafólki“ og hvetur launafólk og fjárfesta að sniðganga það.
Þessu heldur Drífa fram í færslu á Facebook vegg sínum þar sem hún deilir frétt um uppbyggingu Play í Litháen.
„Auðvitað er það rökrétt framvinda að Play leiti lægri launa annars staðar en hér á landi. Viðskiptamódelið gengur út á lækkun launakostnaðar og til þess hefur félagið lagt til hliðar samskipti á vinnumarkaði og brotið allar reglur, þ.m.t. að sölsa undir sig heilt stéttarfélag.“
Bætir hún svo við að flugfélagið sé hættulegt íslensku launafólki.
„Play er stórhættulegt íslensku launafólki, ekki bara flugfreyjum og -þjónum heldur öllum. Það er engin tilviljun að miðstjórn ASÍ og formannafundur hefur hvatt til sniðgöngu á félaginu, það er ekki yfirlýsing sem gefin er á hverjum degi.“ Drífa hefur áður veist að stjórnendum félagsins og skorðað á fólk að sniðganga það.
Ekki náðist í Birgi Jónsson, forstjóra Play við vinnslu fréttarinnar.